KR hefur samið við hinn ameríska Julian Boyd um að leika með liðinu á komandi leiktíð í Dominos deild karla. Þetta kemur fram á Twittersíðu blaðamannsins Nicola Lupo í dag.
Julian Boyd hefur leikið í Kanada síðustu tvö árin við góðan orðstýr en þar á undan lék hann með LIU háskólanum í fjögur ár en þeir Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson léku með sama skóla tveimur árum eftir að Boyd útskrifaðist. Boyd var valinn bestu leikmaður NEC deildarinnar í Bandaríska háskólaboltanum árið 2012.
Boyd lék með liði London Lightning í Kanadísku deildinni síðustu ár. Hann var með 12,5 stig og 6,3 fráköst að meðaltali í 31 leik á síðustu leiktíð. Julian er 28 ára framherji og er rúmir tveir metrar á hæð.
Ferill Julians hefur ekki verið dans á rósum því hann hefur á leikmannaferli sínum slitið krossband alls fjórum sinnum og nú síðast árið 2017. Það hefur hinsvegar ekki stöðvað hann en Julian hefur alltaf komið sterkur til baka. Viðtal við Julian um meiðslin má finna hér.
Þjálfari Julians hjá London Lightning var íslendingurinn Keith Vassell sem lék með KR í nokkur ár auk fleiri liða á Íslandi. Vassell fékk Íslenskan ríkisborgararétt en líklegt er að hann eigi einhvern þátt í komu Julians til KR.
Julian Boyd kemur til með að styrka Íslandsmeistara KR fyrir komandi leiktíð en liðið hefur breyst gríðarlega í sumar. Ingi Þór Steinþórsson er tekinn við liðinu af Finn Frey Stefánssyni sem sagði starfi sínu lausu. Liðið hefur misst Darra Hilmarsson, Brynjar Þór Björnsson, Kristófer Acox og Arnór Hermannsson frá síðustu leiktíð. Dino Stipcic hefur þá samið við liðið auk þess sem Emil Barja kom til liðsins í gær.