Haukar leiddu með einu stigi, 22-21, eftir fyrsta leikhluta og tóku svo frábæran kafla í upphafi annars og náðu upp mest 11 stiga forskoti í fyrri hluta leikhlutans. Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, tók leikhlé og mun beittari KR-ingar komu inn á völlinn. Hægt og bítandi unnu þeir upp muninn og minnkuðu muninn niður í tvö stig áður en gengið var til búningsherbergja í hálfleik.
KR tók öll völd í þriðja leikhluta en þessi leikhluti hefur verið hvað verstur fyrir Hauka í vetur. Fljótlega voru Vesturbæingar komnir 11 stigum yfir og gjörsamlega búnir að snúa taflinu við. Haukar skoruðu aðeins 12 stig í leikhlutanum og KR leiddi með 11 stigum 53-64 fyrir fjórða leikhluta.
Haukar gerðu það sem þeir gátu til að minnka muninn og nokkrum sinnum gerðu þeir þetta að leik ef svo mætti að orði komast. Vendi punkturinn var þó þegar Haukar skoruðu flotta körfu og minnkuðu muninn niður í fjögur stig en Joshua Brown svaraði með þriggja stiga körfu, fyrir KR, á loka sekúndu skotklukkunnar. Skot Brown var í algjörri neyð og verður að segjast að skotið sem að ungur Hafnfirðingur tók og smellti ofan í milli fyrsta og annars leikhluta hafi verið mun betra. Þessi ungi áhorfandi hélt heim sáttur og glaður með 10 kassa af kók í farteskinu.
Við þessa körfu frá Brown datt aðeins botninn úr leiknum þó svo að rauðir hafi barist áfram fram á síðustu mínútur. Svo fór að KR vann með átta stigum 74-82 og Haukar áfram í 11. sæti deildarinnar en KR lyftir sér upp í 6. sæti úr því 7.
Joshua Brown var stigahæstur KR með 26 stig og 5 stolna bolta og Robert Ferguson var honum næstur með 17 stig og 6 fráköst.
Hjá Haukum var það Hayward Fain sem að var atkvæðamestur með 18 stig og 8 fráköst og Chris Smith var honum næstur með 16 stig og 12 fráköst.
Mynd: [email protected]