16:06
{mosimage}
Hvert vor er spilaður í Bandaríkjunum körfuboltaleikur þar sem 20 bestu leikmenn High School boltans eru valdir og skipt í tvö lið. Þessi leikur sem er einn þriggja All-Star leikja í háskólaboltanum er kallaður Jordan Brand All-Americans og heitir eftir einum besta íþróttamanni allra tíma.
Þarna hafa í gegnum árin spilað þó nokkrir snillingar og var t.d. spilaður hörkuleikur árið 2002 þar sem menn á borð Carmelo Anthony, Amare Stoudemire og Andre Iguodala slógu í gegn í sínum síðasta leik áður en leiðin lá í háskóla eða NBA deildina.
Þegar þeir 20 leikmenn sem taka þátt í leiknum í ár voru tilkynntir þann 31. janúar sl. ráku menn augu í að Jordan nafnið kom í þetta skiptið ekki einungis fyrir í nafni leiksins heldur hafði einnig verið valinn til að taka þátt í leiknum skotbakvörður úr Loyola skólanum í Illinois, að nafni Jeffrey Michael Jordan. Jeffrey þessi er sonur hins eina sanna Michael Jordan, fæddur 1988, 185 cm. á hæð, 77 kg. og spilar eins og fyrr segir stöðu skotbakvarðar.
Það kom mörgum sem þekkja til High School boltans gríðarlega á óvart að sjá Jordan nafnið á leikmannalistanum. Þó að Jeffrey hafi spilað ágætlega í vetur þá er Loyola skólinn ekki talinn sterkur á landsvísu og er Jeffrey ólíkt hinum 19 leikmönnunum í þessum árlega leik ekki á óskalista stóru háskólanna. Þrátt fyrir drauma um að feta í fótspor föður síns og leika fyrir Chappell Hill háskólann í Norður-Karólínu er orðið ljóst að það mun ekki verða raunin og er ekki ósennilegt að Jeffrey muni leika fyrir einhvern háskóla í heimafylki sínu Illinois næsta vetur. Drengurinn er þó afburða námsmaður og gæti út á einkunnir komist í nánast hvaða háskóla sem er. Ekki er þó talið líklegt að hann sé tilbúinn að leggja körfuboltaferilinn til hliðar strax.
Það eru einnig sumir körfuboltaspekingarnir sem ganga svo langt að segja að Jeffrey hafi jafnvel ekki það sem þarf til að spila fyrir skóla í efstu deild ACC háskólaboltans. Ónefndur fréttaritari ESPN sem sá leik með Loyola skólanum lýsti t.d. Jeffrey á þennan hátt: “Hann leit út alveg eins og Michael Jordan. Nema hvað hann er örvhentur, reyndi ekki svo mikið sem eina troðslu og eyddi miklum tíma leiksins á bekknum.”
Það er þó ljóst að þrátt fyrir að standast ekki samanburðinn við gamla manninn þá hefur Jeffrey verið valinn til að taka þátt í þessum leik og hvort hann hafi verið valinn í leikinn útfrá eigin verðleikum eða það hafi verið Jordan nafnið sem skilaði honum þangað er alveg ljóst að Jeffrey er a.m.k. orðinn sæmilega þekkt nafn í körfuboltanum í Bandaríkjunum og það er aldrei að vita nema við fáum að frétta meira af honum í framtíðinni.
Það má svo til gamans geta að yngri bróðir Jeffrey leikur einnig með Loyola skólaliðinu. Hann heitir Marcus og er fæddur árið 1990. Marcus Jordan er talinn töluvert meira efni en bróðir hans.
Video af Jeffrey
http://www.chicagosports.rivals.com/video.asp?pkey=12641§ion=bbrecruit&vidtype=amp&vidid=1630
Hérna er piltur svo að troða (hann er nr. 32 en ekki 33 eins og stendur í byrjun)
http://youtube.com/watch?v=vcvYPNsbD60