spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaJonni: Ég var ekki merkilegur í körfu en geggjaður í marki!

Jonni: Ég var ekki merkilegur í körfu en geggjaður í marki!

Körfuboltaþjálfarinn Jón Halldór Eðvaldsson – Jonni – hefur verið lengi að í sportinu og tekið að sér ýmis verkefni. Hann var dómari, hann er þjálfari og þá er hann einn af sérfræðingunum í þættinum Domino´s Körfuboltakvöld. Jonni er með skemmtilegri mönnum og Karfan lagði fyrir hann nokkrar spurningar.

Jonni byrjaði „að þjálfa 1997, ef ég man þetta rétt, en þá var ég búinn að vera að dæma í einhver ár og hafði mjög gaman af, og eðlilega hef ég mjög mikinn áhuga á körfubolta,“ segir hann og bætir við: „Ég hafði mikinn áhuga á að taka að mér þjálfun; man ekki hver það var – mögulega var það Kristinn Óskarsson – sem fékk mig í að þjálfa yngri flokk, en ég þarf eiginlega að þakka viðkomandi innilega fyrir. Ég tók síðan við kvennaliði Keflavíkur 2006, og það var fyrsta þjálfarastarfið mitt í meistaraflokki.“

Jonni og félagar í Dominos Körfuboltakvöldi

Jonni hefur unnið fjöldann allan af titlum sem körfuboltaþjálfari í gegnum tíðina og það tengja hann flestir við körfuna, en færri vita að hann var góður markvörður í knattspyrnu. En gat hann eitthvað í körfu?

„Ég var ekki neitt merkilegur í körfu en ég var geggjaður í marki! Ég á reyndar einhverja Íslands- og bikarmeistaratitla í yngri flokkum – hugsa að það hafi ekki verið mér að þakka samt – en ég hætti í körfu fimmtán ára gamall til að elta knattspyrnuferilinn; það var ekki rétt „move“ hjá mér,“ segir Jonni og hlær. „En ég elskaði að spila fótbolta og kynntist mikið af toppfólki þar.“

Jonni, hvernig heldur þú þér á tánum sem þjálfari?

„Ég veit ekki hvað sé best að segja varðandi það. Ég hugsa að mikill áhugi á körfubolta sé það sem haldi mér á tánum. Svo hef ég bara svo rosalega gaman af því að vera inni í íþróttasal. Ég hef ekki farið í neitt nám varðandi þjálfun; hef setið eitthvað af námskeiðum en mest er þetta grúsk. En námið mitt um þessar mundir felst í því að hlusta á mesta körfuboltagúru sem ég hef hitt, og hann heitir Hörður Axel – fyrir miðaldra karlmann er það mjög gefandi og skemmtilegt.“

Jonni sem þjálfari Keflavík B árið 2013

Spurður um hvað það sé sem geri þjálfun svo heillandi er Jonni ekki seinn til svars.

„Þetta snýst ekki um peninga – þetta sýnst um að búa til minningar og ég er orðinn moldríkur af þeim, og þær verða aldrei teknar af mér. En þetta er auðvitað fyrst og fremst áhugamál; alveg eins og fólk spilar golf og vill helst vera á golfvellinum alla daga og spila þá vil ég vera í íþróttahúsinu sex daga vikunnar.“

Hvaða þjálfunaraðferðum eða taktík beitir þú og hvernig myndirðu lýsa þér sem þjálfara?

„Taktík breytist eftir því hvernig lið þú ert að þjálfa. Ég hef aldrei verið fastur í að gera hlutina eins; ég reyni að aðlaga mig að þeim verkefnum sem ég er með hverju sinni og vinn mig þaðan. Ég er liðsþjálfari fyrst og fremst.“

Þegar Jonni er spurður hver séu markmið Keflavíkur á þessari leiktíð er svarið stutt og laggott:

„Það er fyrst og fremst eitt – að spila fleiri leiki en í fyrra.“

Hvernig líst þér á deildina í ár – eru gæðin að aukast hjá stelpunum?

„Ég veit voðalega lítið um gæðin hjá öðrum liðum, en í mínu liði er ég svakalega ánægður með þau.  Mögulega er þetta eitthvað lakara en í fyrra, en það eru svo fáir leikir búnir að það er nánast ómögulegt að segja til um það fyrr en ég sé fleiri leiki. Hvað varðar topp- og botnbaráttuna þá á þetta allt eftir að koma í ljós – staðan er bara þannig núna að það er ómögulegt að segja til um þetta fyrr en mótið fer aftur af stað.“

Hvernig skyldi nú Jonna lítast á kvennalandsliðið í dag? Hann er ekki margorður um það.  

„Það hefur mátt muna sinn fífil fegurri.“

Jonni með Íslandsmeisturum Keflavíkur 2011

Þá að Domino´s Körfuboltakvöldi, en þar er Jonni einn af sérfræðingunum. Hann segir mikla gleði fylgja þættinum.

„Það að hafa fengið að taka þátt í þessu ævintýri sem þessi þáttur er, er mjög skemmtilegt. Þessi þáttur hefur einfaldlega lyft körfuboltanum hér á Íslandi upp á annað plan. Núna er allt í einu fullt af fólki sem veit lítið um körfu farið að fylgjast með og hafa gaman af. Takmarkinu var þar með náð, en betur má ef duga skal, og við höldum ótrauð áfram að búa til frábært sjónvarp fyrir Íslendinga,“ segir Jonni sem er þó ekki einungis mikill áhugamaður um körfubolta þótt hann sé í forgrunni.

„Ég elska að elda og ég er mikill áhugamaður um ferðalög; ferðast mikið og hef rosalega gaman af því að fara á fótboltaleiki á Englandi. En fyrst og fremst er ég áhugasamur um lífið og að lifa því.“

Texti / Svanur Már Snorrason

Fréttir
- Auglýsing -