spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaJónína og Fanney áfram í Ármann

Jónína og Fanney áfram í Ármann

Ármenningar hafa samið við tvö af mikilvægustu leikmönnum liðsins frá síðustu leiktíð en það var tilkynnt fyrr í kvöld. Jónína Þórdís Karlsdóttir og Fanney Ragnarsdóttir verða áfram með liðinu.

Ármann endaði í 6. sæti í 1. deildinni á síðustu leiktíð og misstu af sæti í úrslitakeppninni. Ljóst er að liðið ætlar sér stærri hluti á næstu leiktíð og líklegt að Jónína og Fanney leiði þá vegferð.

Tilkynningu Ármanns má finna í heild sinni hér að neðan:

Ármann hefur náð samkomulagi við þær Jónínu Þórdísi Karlsdóttur og Fanneyju Ragnarsdóttur um að leika áfram með liðinu. Voru þær framlagshæstu íslensku leikmenn deildarinnar í fyrra en til gamans má geta að eftir að deildarkeppni lauk voru eingöngu tveir Íslendingar á lista yfir topp 10 framlagshæstu leikmenn deildarinnar.

Jónínu þarf vart að kynna fyrir Ármenningum. Tímabilin 2020-2021 og 2021-2022 var hún valin besti leikmaður fyrstu deildar kvenna á uppskeruhátíð KKÍ. Þá var hún framlagshæsti íslenski leikmaður deildarinnar árin 2022-2023 og 2023-2024. Hefur hún jafnframt verið valin í úrvalslið 1. deildar kvk þrisvar sinnum ásamt því að hafa hlotið nafnbótina körfuknattleiksmaður ársins og MVP mfl kvk nokkrum sinnum. Hún spilaði upp yngri landslið Íslands og stofnaði mfl kvk í Ármanni árið 2020 eftir að hafa tekið sér þriggja ára pásu frá körfubolta. Við erum gríðarlega ánægð með að Jónína ætli að taka slaginn aftur með okkur.

Fanney kom eins og stormsveipur inn í Ármannsliðið í fyrra og smellpassaði strax inn í leikstíl liðsins. Hún byrjaði alla leiki á síðasta tímabili og var einn af lykilleikmönnum liðsins en hún bætir liðið bæði innan og utan vallar. Hún er 27 ára gamall bakvörður sem hefur mikla reynslu bæði í úrvals- og 1. deild og erum við gríðarlega ánægð með að sjá hana áfram í bláu og hvítu aftur á næsta tímabili.

Til gamans má geta að bakverðirnir tveir ná einstaklega vel saman á vellinum og hlökkum við að fylgjast með þeim blómstra saman með liðinu í vetur.

Fréttir
- Auglýsing -