Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í liði CAI Zaragoza í kvöld þegar liðið lagði Gran Canaria að velli 63-61 í ACB deildinni á Spáni. Jón átti risavaxinn þrist á lokasprettinum sem kom Zaragoza í 63-59 en lokatölur 63-61 eins og áður segir. Jón var stigahæstur í liði Zaragoza með 13 stig.
Jón lék í rúmar 30 mínútur í leiknum, setti niður 2 af 5 skotum sínum í teignum og 3 af 6 þriggja stiga skotum. Þá var hann einnig með 3 stoðsendingar og 2 fráköst.
Með sigrinum er Zaragoza komið upp í 6. sæti deildarinnar með 7 sigra og 6 tapleiki.