Í morgun var gengið frá samningum við miðherjann Jón Orra Kristjánsson sem kemur til Stjörnunnar frá KR. Jón er rúmlega tveir metrar á hæð og er þekktur fyrir mikla eljusemi inni á vellinum. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Stjörnunnar.
Á Facebook-síðu Garðbæinga segir ennfremur:
Stjarnan hefur undanfarin ár verið með Skagamann í miðherjastöðunni og í ár verður engin breyting á. Fannar Helgason frá Ósi er farinn og kemur Jón Orri í hans stað, en þeir félagar eru æskuvinir ofan af Skaga.
Jón Orri kemur með mikla reynslu inn í Stjörnuliðið. Hann er 31 árs gamall og var tvisvar sinnum Íslandsmeistari með KR. Í annað skiptið spilaði hann undir stjórn Hrafns Kristjánssonar og skilaði þá 4,4 stigum og 4,3 fráköstum í leik á um fimmtán mínútum að meðaltali.
Jón Orri spilaði einnig fyrir Hrafn í Þór Akureyri og þar átti miðherjinn sín bestu tímabil, ef rýnt er í tölfræðina. Árið 2009 var hann með 10 stig og 7 fráköst að meðaltali í leik.
Leikstíll Jóns Orra hentar vel í Stjörnuliðið. Hann er þekktur baráttujaxl sem leggur mikið á sig fyrir liðið. Hans styrkleikar munu koma til með að bæta liðið mikið að mati þjálfaranna. Hann hefur leikið einn æfingaleik með liðinu og spilaði þar glimrandi vel gegn Njarðvíkingum.
Hér á myndinni sést hann handsala samning sinn við liðið og er með þjálfurum liðsins, Hrafni Kristjánssyni og Kjartani Atla Kjartanssyni. Liðið hefur æft mjög vel í sumar og er staðan á flestum leikmönnum liðsins góð. Mest áhersla hefur verið lögð á líkamlega þáttinn í sumar, en nú er liðið mætt inn í Ásgarð og farið að leggja drög að vetrinum. Stutt er í að þeir Justin Shouse og Jarrid Frye mæti til leiks.
Stjarnan býður Jón Orra velkominn í fjölskylduna.