Fjórum umferðum er lokið í Domino´s deild karla og eftir gríðarlega harða baráttu við Tómas Heiðar Tómasson var það Jón Ólafur Jónsson leikmaður Snæfells sem valinn var Gatorade-leikmaður fjórðu umferðar. Jón Ólafur var prímusmótorinn í sigri Snæfells á KR í DHL-Höllinni þegar Hólmarar færðu Vesturbæingum sinn stærsta ósigur á heimavelli frá stofnun félagsins!
Þrátt fyrir að hafa lekið því í Morgunblaðið að sig rámaði í að hafa brennt af skoti í leiknum þá segja opinber gögn enn þann dag í dag að Jón Ólafur hafi verið með 100% skotnýtingu í leiknum. 5 af 5 í teignum, 5 af 5 í þriggja og bæði vítin niður. Við þessi ósköp bætti hann svo 5 fráköstum og 2 stoðsendingum.
Fréttaritarar og ljósmyndarar Karfan.is settu öll sín atkvæði á Jón Ólaf og Tómas Heiðar Tómasson sem kláraði Tindastól með magnaðri flautukörfu en Jón vann kosninguna með naumindum. Spurning hvort hinn dagfarsprúði Nonni Mæju sendi nú ekki eina flösku á Tómas Heiðar næst þegar þeir mætast á parketinu.