21:38
{mosimage}
(Jón Halldór var ekki sáttur við frammistöðu lykilmanna sinna í kvöld)
,,Við erum með bakið upp við vegginn eins og oft er talað um svo nú er bara spurning um hvað gerist næst,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur í samtali við Karfan.is en Keflavík er 2-0 undir í einvígi sínu gegn KR í undanúrslitum Iceland Express deild kvenna. Einn ósigur í viðbót tryggir KR inn í úrslitin og sendir Keflavík í sumarfrí.
,,Við gáfum KR þennan leik í kvöld, strax frá fyrstu mínútu,“ sagði Jón og vildi ekki viðurkenna að Keflvíkingar hefðu verið bensínlitlir eftir að hafa saxað niður forskot KR í þriðja leikhluta. ,,Það var nóg bensín eftir en við fengum þrist í andlitið og það bara slökkti í okkur. Einn þristur í andlitið á okkur eyðilagði 15 stiga áhlaup okkar, við þurftum bara að halda áfram en gerðum það ekki,“ sagði Jón Halldór en hvað er það sem Keflvíkingar þurfa að kippa í liðinn fyrir þriðju viðureign liðanna.
,,Það sem þarf að gerast er að burðarstólparnir í liðinu mínu þurfa að taka sturtuhausinn og skola skítinn af bakinu á sér,“ sagði Jón Halldór ákveðinn í leikslok.