Um þetta leyti í fyrra var Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkurkvenna kominn í sumarfrí. Að þessu sinni er hann kominn í úrslitaeinvígið eftir 3-1 sigur Keflavíkurkvenna á Íslandsmeisturum KR í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar.
,,Ég er alsæll, er eitthvað annað hægt,“ sagði Jón Halldór í leikslok en áður en lengra var haldið inntum við Jón eftir skýringum á löngum köflum í leiknum þar sem Keflvíkingar hefðu vart geta keypt körfur fyrir fúlgur fjár.
,,Í þessari seríu höfum við verið okkar versti óvinur, það hafa komið alltof langir kaflar þar sem við skorum alltof lítið eða ekki neitt og það er út af því að við erum ekki inni í sóknarleiknum okkar. Við höfum eytt gríðarlegum tíma í sóknarleikinn okkar í vetur en stundum þegar hefur komið í svona hörkuleiki eins og í kvöld þá er eins og við dettum út úr þessu. Í seinni hálfleik hrökk þetta í gang hjá okkur og þá var ekkert aftur snúið,“ sagði Jón en við hverju býst hann svo í úrslitum, fær hann Hamar eða Njarðvík?
,,Ég veit það ekki, treysti mér ekki til að spá um það en ég held að ég myndi frekar vilja fá Njarðvík heldur en Hamar því það yrði bara frábært fyrir bæjarfélagið mitt ef Keflavík og Njarðvík myndu mætast. Keflavík og Njarðvík hafa ekki mæst í úrslitum karla né kvenna í ég veit ekki hvað langan tíma svo ég veit að það yrði stórkostlegt,“ sagði Jón og kvað að það einvígi myndi vísast skapa góða stemmningu í bæjarfélaginu.
,,Ég hef spilað nokkrum sinnum við Njarðvík í vetur og það hefur verið þvílík stemmning á þeim leikjum og þetta er það sem allir vilja, áhorfendur, leikmenn, blaðamenn og margir fleiri vilja svoleiðis leiki og ég held að Keflavík-Njarðvík gæti orðið stórkostleg sería.“
Áður en við slepptum Jóni í fögnuðinn með sínum leikmönnum fengum við hann til að tjá sig lítið eitt um þær breytingar sem urðu á liði Keflavíkur á dögunum þegar Lisa Kircic tók sæti Jacquline Adamshick í Keflavíkurliðinu þar sem sú síðarnefnda reyndist ristarbrotin.
,,Lisa á aðeins í land og því flott að fá smá frí núna til að vinna í þessu en hún er rosalega klár leikmaður og öflugur liðsmaður. Hún gerði flotta hluti í kvöld þó hún hafi ekki verið að skora mikið en við erum með marga flotta skorara í liðinu okkar.“