spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaJón Björn spáir í þriðju umferð Dominos deildar karla

Jón Björn spáir í þriðju umferð Dominos deildar karla

Í hverri viku munu sérfræðingar Körfunnar spá fyrir um hverja umferð í Dominos deildunum. Sérfræðingarnir verða fyrrum körfuboltamenn, þjálfarar, áhugamenn eða einhver allt annar.

Þriðja umferð Dominos deildar karla hefst í kvöld með fjórum leikjum. Spennandi verður að sjá hvaða lið nær að halda uppteknum hætti frá síðustu umferð.

Spámaður vikunnar er fyrrum ritstjóri Körfunnar Jón Björn Ólafsson.

________________________________________________________________________

Fimmtudagur

Njarðvík-Valur

Ólík byrjun þessara tveggja liða í deildinni. Njarðvíkingar með tvo sigra en Valsmenn án stiga. Herramennirnir af Hlíðarenda eru þó fjarri því auðveld bráð fyrir Ljónin. Njarðvíkingar búnir að vinna tvo tæpa leiki þar sem þeir hafa verið að elta andstæðinga sína lungann af leikjunum en Valsmenn fóru í mikinn slag gegn Haukum í fyrstu umferð en fengu svo skell gegn Tindastól. Á síðustu leiktíð var viðureign þessara liða í Ljónagryfjunni alger naglbítur og það má gera ráð fyrir að leikur liðanna í kvöld verði einnig mikill barningur. Valsmenn unnu síðast deildarleik í Ljónagryfjunni árið 2003 og hungrar því í sigur en það verður á brattann að sækja hjá þeim.

W – Njarðvík

KR-Þór Þorlákshöfn

Meistararnir lágu í síðasta leik og hafa ekki verið mikið fyrir það síðustu ár að gefa stig í DHL-Höllinni svo Þórsara bíður erfitt verkefni í kvöld. Þór missti leikinn gegn Njarðvík frá sér á lokasprettinum en meiðsli eru að setja strik í reikninginn hjá þeim, hvort Emil og Matulis séu klárir í búning hreinlega veit ég ekki en ef þeir verða báðir með eykur það líkurnar á að Þór finni sín fyrstu stig á tímabilinu.

W-KR

Grindavík-Keflavík

Alltaf hressandi að fá Suðurnesjaslag. Stóra Clinch-málið setur mark sitt á leikinn, það gæti vel verið að Grindvíkingar yrðu kanalausir í kvöld eða Clinch yrði með og við svo búið hefur hann þá lítið sem ekkert náð að slípa sig við liðið. Við þannig aðstæður getur brugðið til beggja vona, leikmaður sem Keflavík hefur ekki séð til undanfarin misseri gæti dottið í gírinn eða boið upp á þotuþreytu í fríhafnarpokanum sínum og verið úti á túni. Keflvíkingar eru í gír eftir sigurinn á KR og Grindavík tapaði ekki bara uppi í Borgarnesi heldur misstu Vinson úr hóp vegna meiðsla. Það renna öll vötn til Keflavíkur að þessu sinni, sigur hjá Grindavík kæmi á óvart við þessar aðstæður.

W-Keflavík

Tindastóll-Haukar

Tveir sannfærandi sigrar hjá Tindastól í upphafi leiktíðar gegn Þór Þorlákshöfn og Val. Haukar að sama skapi fengu skell gegn ÍR í síðustu umferð og vilja væntanlega rétta úr þeim kút, það verður áskorun á einum sterkasta heimavelli landsins. Það má helvíti mikið ganga á ef Stólarnir gefa stig heima í vetur en það tókst nokkrum liðum síðasta tímabil að finna lausn á þeim vanda, spurning hvort Haukar blandi sér í þann hóp í kvöld.

W-Tindastóll

Föstudagur

Stjarnan-Skallagrímur

Borgnesingar náðu í tvö dýrmæt stig í síðustu umferð gegn Grindavík en talandi um sterka heimavelli þá er Ásgarður orðinn vel lestaður um þessar mundir. Nýliðarnir myndu heldur betur vekja athygli með sigri hérna en í Garðabæ hitta þeir hóp landsliðsmanna og þjálfara sem mæta klárir til leiks. Stjarnan er búin að opna mótið á sigrum gegn ÍR og Breiðablik en Skallarnir með sigri gegn Grindavík en lágu í fyrsta leik gegn KR.

W-Stjarnan

ÍR-Breiðablik

Þetta verður naglbítur frá upphafi til enda. Gerald Robinson hrökk vel í gang hjá ÍR í síðustu umferð, 5-8 í þristum. Blikar að sama skapi hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum sínum gegn Grindavík og Stjörnunni en hafa verið að sýna flotta takta. Ég sé þennan ráðast á lokametrunum og tippa á sigur ÍR enda verður fjör á pöllunum í Hertz-hellinum.

W-ÍR

Spámenn tímabilsins: 

  1. umferð: Atli Fannar Bjarkason (4 réttir)
Fréttir
- Auglýsing -