spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaJón Axel vonast til að fylgja San Pablo Burgos upp í deild...

Jón Axel vonast til að fylgja San Pablo Burgos upp í deild þeirra bestu á Spáni ,,Áhugi hjá báðum aðilum”

Jón Axel Guðmundsson og San Pablo Burgos tryggðu sér sæti í ACB deildinni á Spáni er þeir lögðu Fuenlabrada í toppslag Primera FEB deildarinnar, 87-74.

San Pablo Burgos hafa því tryggt sér efsta sæti deildarinnar þrátt fyrir að enn séu nokkrar umferðir eftir og þar með beina leið upp í efstu deild Spánar, ACB.

Jón Axel hefur verið einn af burðarásum liðsins á þessu frábæra tímabili þeirra, en í leiknum sem tryggði þeim titilinn var hann með 14 stig og 6 fráköst.

Karfan tók stöðuna á Jóni og spurði hann út í þennan frábæra árangur, hvernig þeir hafi fagnað titlinum og hvað framtíðin beri í skauti sér. Varðandi tímabilið með San Pablo Burgos sagði Jón ,,Mér fannst við bara vera með lang best mannaða hópinn sem var settur saman með einu missioni og það var að fara beint upp í ACB. Svo vorum við með langbesta þjálfarann í deildinni sem setti upp gott gameplan fyrir hvern einasta leik.”

Það er ekki lítið mál fyrir lið að vinna sig upp í deild þeirra bestu á Spáni, en lið Jóns hafði verið í fyrstu deildinni frá því þeir féllu úr ACB deildinni tímabilið 2021-22. Líkt og sjá má á X reikning félagsins og hér fyrir neðan var liðsmönnum vel fagnað eftir að bikarinn fór á loft. Varðandi fögnuðinn og þá staðreynd að liðið væri aftur á leið í deild þeirra bestu sagði Jón ,,Heyrðu það sturlaðist allt bara í borginni og þeir voru búnir að vinna champions league 2 ár í röð og svo búnir að tapa í úrslitum í playoffs í primera feb nokkur ár í röð. Það var bara drukkið vatn og haft gaman með öllum í kringum liðið og öllum áhorfendunum í einhverjum gosbrunni í miðbænum. Þannig þetta var alveg sturluð stund að upplifa”

Jón Axel algjör lykilleikmaður fyrir liðið á þessu tímabili, en varðandi sinn framgang sagði hann ,,Bara helsta sem var, var að ég og þjálfarinn þekktum hvorn annan mjög vel fyrir tímabilið. Þannig ég vissi svona við hverju hann væri að búast við frá mér og hann gaf mér mikið traust til að stjórna flestu sem að gerðist inná vellinum. Þannig held það hafi verið svona fyrst og fremst bara að vita sama hvað gerðist, þá var traustið á milli mín og hans aldrei að fara breytast, þannig spilar maður oft með miklu meira frelsi og sjálfstrausti inná vellinum.”

Þrátt fyrir að vera ekki gamall að aldri hefur Jóni tekist að spila í nokkrum af bestu deildum Evrópu, en þó aldrei verið á mála hjá liði í ACB deildinni á Spáni. Varðandi framhald sitt með liðinu og hvort hann fari með þeim upp um deild sagði Jón ,,Það er planið og vonandi gengur það bara upp, veit að það er áhugi hjá báðum aðilum. þannig þegar tímabilið klárast þá verður það bara rætt og kemur í ljós í sumar hvernig það fer.”

Fréttir
- Auglýsing -