Íslenska U20 landsliðið í körfubolta stendur í ströngu í Grikklandi þessa dagana þar sem liðið spilar í B-deild Evrópumóts landsliða undir 20 ára.
Liðið spilar úrslitaleik um að komast uppúr riðli sínum gegn Póllandi en auk þess var Rússland, Hvíta Rússland og Eistland með Íslandi í riðlinum.
Ísland vann gríðarlega sterkan sigur á Rússlandi um helgina þar sem Tryggvi Hlinason og Jón Axel Guðmundsson sýndu stórkostlega frammistöðu.
Karfan.is heyrði hljóðið í Jón Axeli frá Chalikda um leikinn stóra gegn Pólverjum, frammistöðuna og stemmninguna í hópnum.
,,Ég held að við séum bara allir vel stemmdir og tilbúnir í pólverjana, erum að fara koma úr tveggja daga fríi þannig enginn afsökun fyrir okkur að koma ekki fullstemmdir í þennan leik. Mórallinn er góður í liðinu og það er að sýna sig inni á vellinum." Sagði Jón Axel um stemmninguna og stöðuna fyrir leikinn gegn Póllandi.
,,Fyrir okkur er þetta bara 50/50 leikur og ef við komum tilbúnir í leikinn getur þetta dottið á báða vegu. Það má búast við spennandi leik sem ræðst á seinustu stundu held ég."
,,Möguleikarnir eru þannig að ef við vinnum Pólland þá erum við í 1.sæti en ef við töpum á móti þeim og Hvíta-Rússland tapar öllum erum við í öðru sæti. Þannig við verðum bara að leggja okkur alla fram í þennan leik og vona það besta."
Árangur liðsins er eftirtektarverður en hvað veldur? er það hitinn í Grikklandi? ,,Ég held það sé bara liðið ekkert hitinn eða aðrir utanaðkomandi þættir. Erum bara gríðarlega sterkir og með marga góða leikmenn.
,,Miðað við góð úrslit á mótinu þá höfum við ekki náð einum leik sem við höfum verið almennilega sáttir við frammistöðuna okkar. Við erum búnir að hitta hræðilega á mótinu en við höfum fulla trú á að þetta komi hjá okkur á miðvikudaginn."
Jón Axel var frábær gegn Rússlandi og var með 32 stig og 11 fráköst en liðið vann góðan sigur eftir slaka byrjun á leiknum.
,,Ég átti flottan leik en þetta var liðssigur sem skilaði þessum sigri. Við lögðum okkur alla fram í þennan leik útaf við vissum að við þurftum að vinna Rússanna til að eiga sjéns á að komast í 8 liða úrslit."
Leikurinn fer fram kl 15:45 að íslenskum tíma á morgun (20. júlí) og má sjá lifandi tölfræði auk tölfræði liðsins á mótinu á síðu FIBA Europe
Viðtal / Ólafur Þór Jónsson