Nýliðaval NBA deildarinnar fer fram komandi miðvikudag rafrænt úr höfuðstöðvum ESPN í Connecticut í Bandaríkjunum. Venju samkvæmt eru umferðir valsins tvær, þar sem hvert lið hefur á einum valrétt að ráða í hvorri umferð, en það getur þó eitthvað runnið saman, því liðunum er heimilt að skipta þessum réttum sín á milli mörg ár fram í tímann.
Þetta árið stendur liðum deildarinnar til boða að velja Grindvíkinginn Jón Axel Guðmundsson, en hann kláraði glæsilegan háskólaferil sinn með Davidson síðastliðið vor áður en hann gerðist atvinnumaður hjá Fraport Skyliners í þýsku Bundesligunni.
Jón Axel hefur farið vel af stað með nýju liði sínu, í fyrstu fimm leikjunum hefur hann skilað 18 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik. Þær frammistöður, sem og verðlaunaður ferill hans í háskóla hjálpar honum að komast til tals hjá þeim liðum sem velja, en með því að velja hann væru þau að tryggja sér þjónustu hans í NBA deildinni og koma í veg fyrir að hann gæti samið við annað lið án þeirra samþykkis.
Dagblaðið USA Today, líkt og margir aðrir prent og netmiðlar, spá í spilin fyrir nýliðavalið hvert ár. Í síðustu útgáfu væntrar raðar í valinu setur USA Today Jón Axel í 93. sæti. Nokkuð frá þessum efstu 60 valréttum, en eðli málsins samkvæmt er það ekki meitlað í stein og því mætti vel ætla að einhver lið í deildinni væru að skoða íslenska landsliðsmanninn þessa stundina.
Hérna er hægt að skoða lista USA Today
Hérna er hægt að skoða viðtal sem NBA.COM birti við Jón Axel síðasta sumar