Landsliðsmaðurinn Jón Arnór Stefánsson var rétt í þessu að staðfesta við Karfan.is að hann muni leika á Íslandi í vetur! „Ég ákvað að vera heima, tók þá ákvörðun í gær,“ sagði Jón Arnór í samtali við Karfan.is. Jón er því ekki á leið aftur erlendis í atvinnumennsku, í það minnsta ekki á næstu leiktíð.
Þó er ekki komið á hreint hvar Jón muni leika og því ljóst að hann er í viðræðum við fleiri en eitt lið hérlendis.
Hvað liggur að baki ákvörðuninni?
„Þetta tekur allt einhverntíman enda,“ sagði Jón og átti þá við dvölina erlendis í atvinnumennsku. „Ég var alltaf á því að eitthvað mjög spennandi þyrfti að koma til að ég færi út aftur en það er líka ákveðinn léttir að vera búinn að taka þess a ákvörðun svo ég er bara sáttur. Það er gaman að koma heim og spila og þessu fylgir auðvitað að maður sé að ræða við fleiri en einn aðila,“ sagði Jón við Karfan.is í dag.
Einsýnt er að baráttan um starfskrafta kappans verður hörð enda einn allra fremsti körfuknattleiksmaður landsins.