Mikið hefur verið og er að fara gerast hjá landsliði okkar íslendinga þetta árið. Fyrst voru það Smáþjóðaleikarnir, sem voru hér heima í byrjun júní. Þar sem að liðið náði öðru sæti. Næst er það hinsvegar lokamót Eurobasket í Berlín nú í september. Við það tilefni fannst okkur kjörið að hafa uppi á nokkrum fyrrum landsliðsmönnum Íslands og fá að spyrja þá að nokkrum spurningum.
Sá fyrsti sem að við heyrðum í var enginn annar en körfuknattleiksmaður 20. aldarinnar (staðfest), Pétur Guðmundsson, en sjá má hans svör hér.
Næstur í röðinni var svo enginn annar en eins mans stórskotaliðið og Keflvíkingurinn Guðjón Skúlason, en meðfram því að safna titlum (bæði sem leikmaður og þjálfari) og gefa (meðal annarra) Sláturhúsinu nafnið sitt, spilaði kauði einnig eina 122 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hér er hægt að sjá hans svör.
Nú er hinsvegar komið að landsleikjahæsta leikmanni Íslands og Grindvíkingnum Guðmundi Bragasyni, en hann náði að spila hvorki fleiri né færri en 169 leiki fyrir Íslands hönd frá árinu 1987 til ársins 2003.
Nafn:
Guðmundur Bragason
Ferill:
Ólst upp og spilaði með Grindavík allt til haustsins 1996, fyrir utan veturinn 85-86 þegar ég var í menntaskóla í USA. Stoltur að eiga þátt í því að koma Grindavík úr 1. deild í að verða Bikarmeistarar 1995 og Íslandsmeistarar 1996. Spilaði 96-98 með BCJ Hamburg í Þýskalandi og 98-99 með BC Weissenfels í Þýskalandi. Spilaði með Haukum þrjú tímabil eftir að fjöskyldan flutti aftur til Íslands en endaði síðan ferilinn með Grindavík.
Félagslið / tímabil:
Grindavík til 1996 (Cumberland Valley HS 85-86)
BCJ Hamburg 96-98
Grindavík/BC Weissenfels 98-99
Haukar 99-02
Grindavík 02-04
Landsliðsferill:
Ég spilaði fyrsta landsleikinn í janúar 1987 og þann síðasta vorið 2003. Spilaði 169 landsleiki á þessum 16 árum. Ég á margar frábærar minningar frá þessum landsliðsferli og spilaði með fjölmörgum eðal drengjum í landsliðinu.
Hvernig var tilfinningin að vera valinn í landslið fyrst?
Hún var náttúrulega frábær og mikill heiður fyrir ungan strák úr Grindavík sem hafði aldrei spilað í úrvaldsdeild. Þá voru aðeins sex lið í úrvalsdeild svo fyrsta deildin var sterk og bauð upp á tækifæri fyrir unga leikmenn að þroskast hratt og vera klárir fyrir stóra sviðið. Einar Bollason og Gunnar Þorvarðar þjálfuðu landsliðið á þessum tíma og ég er þeim ævinlega þakklátur fyrir traustið.
Hvernig var fyrsti leikur þinn fyrir Ísland?
Fyrsti leikurinn var á móti Svíþjóð á sterku móti í Svíþjóð. Ég var í byrjunarliðinu og gekk ágætlega held ég. Leikurinn var jafn og spennandi en við töpuðum með einu stigi 72-71. Önnur lið á mótinu voru Ísrael og Grikkland svo landsliðsferilinn byrjaði með hörku leikjum.
Var móðir þín viðstödd viðureignina?
Nei ekki var hún það, né nokkur annar ættingi.
Hver var eftirminnilegasti leikurinn sem þú lékst fyrir Ísland?
Það er erfitt að taka einn leik út úr löngum ferli en líklega er eftirminnilegasta mótið undankeppni Olympíuleikana á Barcelona 1992 en þar spiluðum við m.a. á móti frábæru liði Króata sem sem hafði innanstokks NBA leikmenn eins og Drazen Petrovic, Toni Kukoc, Dino Radja, Stojko Vrankovic og Zan Tabak. Króatía töpuðu síðar sama ár úrslitaleiknum í Barcelona á móti draumaliði USA. Á sama móti spiluðum við gegn Þýskalandi en þar var í aðalhlutverki einn af mínum uppáhaldsleikmönnum Detlef Schrempf.
Hver var sá besti leikmaður sem þú spilaðir með fyrir landsliðið og afhverju?
Spilaði með mörgum frábærum leikmönnum en verð að segja vin minn Pétur Guðmundsson. Það gera sér ekki allir grein fyrir hversu öflugur Pétur var og hann var alls ekki metinn að verðleikum á Íslandi þó hann spilaði fjögur tímabil í NBA. Pétur var náttúrulega 218 cm á hæð en ótrúlega fjölhæfur leikmaður með góðar hreyfingar nærri körfunni, flottur skotmaður af millifæri og með góðar sendingar.
Hversu ánægður varðst þú við það að fylgjast með landsliðinu tryggja sér sæti á sínu fyrstu lokum stórmóts?
Eins og allir körfuknattleiksaðdáendur þá var ég spenntur að fylgjast með strákunum í landsliðinu og flottum árangri þeirra í undankeppni EM. Að ná þessu langþráða markmiði er gífurlega mikilvægt fyrir íslanskan körfuknattleik og ég samgleðst innilega strákunum í landsliðinu.
Afhverju heldur þú að það hafi loksins tekist fyrir liðið að tryggja sér seðilinn á lokamót?
Íslenskur körfuknattleikur hefur farið mikið fram og markviss og góð þjálfun yngri leikmanna er grunnurinn að þessum árangri. Þegar á hólminn var komið var það síðan einstök íslensk barátta og samheldni sem skilaði okkur í lokakeppni EM.
Hvernig heldur þú að Íslandi eigi eftir að vegna í þessum sterka riðli sem þeir í drógust?
Þetta verður mjög erfitt en skemmtilegt verkefni. Strákarnir eiga að njóta þess að vera í Berlín og takast á við marga af bestu leikmenn Evrópu í dag. Mikilvægt að brotna ekki niður þó á móti blási en með baráttu og samheldni eigum við að geta komið á óvart.
Ef þú fengir að senda einn fyrrum leikmann Íslands með liðinu á Evrópumótið, hver væri það þá og hvernig myndi hann hjálpa liðinu?
Ekki spurning að Pétur Guðmundsson á sínum bestu árum myndi styrkja landsliðið mikið. Við eigum aldrei nóg af hávöxnum leikmönnum.
Hvert telur þú vera, fengir þú að velja lið allra tíma, byrjunarliðs uppstilling íslenska landsliðsins?
Vá, þessi er erfið. Þekki ekki mikið elstu kynslóðina svo sleppi henni.
Bakverðir: Jón Arnar Ingvason og Jón Arnór Stefánsson.
Framherjar: Teitur Örlygsson og Hlynur Bæringsson.
Miðherji: Pétur Guðmundsson.
Heldur þú, að þú sjálfur sem leikmaður, upp á þitt besta, værir á leið með íslenska liðinu til Berlín næsta vor?
Þetta verða aðrir að dæma um en er ekki alltaf pláss fyrir menn sem berjast í fráköstum og vörninni? Maður gæti amk verið andlegur stuðningur á bekknum.
Hver væri þín helsta samkeppni og myndir þú taka hann/þá?
Ætli það sé ekki títtnefndur Pétur Guðmundsson og líklega myndi ég velja hann!
Hvaða ungi leikmaður, sem ekki hefur spilað áður fyrir landsliðið, myndir þú veðja á að ætti eftir að spila yfir 50 landsleiki í framtíðinni?
Kannski smá hlutdrægur en veðja hiklaust á þá bræður Jón Axel og Ingva Þór Guðmundssyni.
Hverja telur þú tvo mikilvægustu leikmenn íslenska liðsins í dag og afhverju?
Þrír mikilvægustu leikmennirnir eru Jón Arnór, Haukur Helgi og Hlynur Bærings. Jón Arnór og Haukur Helgi bera uppi sóknarleikinn og Hlynur bindur saman vörnina og baráttuna í fráköstunum.
Á að bregða landi undir fót og fylgja liðinu til Berlín næsta vor?
Að sjálfsögðu mæti ég og öll mín fjölskylda. Þetta verður stemming sem ég vil ekki fyrir nokkurn mun missa af.