00:13
{mosimage}
(Jón Arnór Stefánsson, besti leikmaður úrslitakeppninnar 2009)
Körfuknattleiksunnendur urðu ekkert voðalega hissa í kvöld þegar Jón Arnór Stefánsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar árið 2009. Jón var ein helsta driffjöðurin í Íslandsmeistaraliði KR sem lagði Grindavík 84-83 í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Jón Arnór gerði 23 stig fyrir KR í kvöld og með titlinum náði hann takmarkinu sínu með KR en hvert er næsta takmark hjá kappanum? Útlönd?
,,Úff, maður þarf bara að setjast niður núna og skoða hvað verður en maður fagnar titilinum næstu daga en eftir það fer maður að pæla í framhaldinu,“ sagði Jón Arnór vígreifur í samtali við Karfan.is í leikslok.
,,Þetta var hörkurimma og ég held að áhorfendur hafi fengið allt fyrir peningana sína,“ sagði Jón Arnór sem varð einnig meistari með KR árið 2000 en hann man lítið eftir þeim titili. ,,Ef ég á að segja satt þá man ég eftir að hafa lyft titlinum árið 2000 því ég sá það seinna í sjónvarpinu. Það er samt svo langt síðan og þá kom ég inn í liðið svo seint en núna er ég búinn að vera allt árið og að uppskera svona í endann er alveg rosalegt,“ sagði Jón og viðurkenndi að eftir bikartapið gegn Stjörnunni hafi pressan aukist á KR.
,,Já, algerlega. Ég held að það hafi allir fundið fyrir því alveg fram yfir þriðja leik gegn Grindavík. Eftir hann þá bara losuðum við okkur við pressuna. Þetta var sálfræði, Ingi Þór og Benni tóku bara sálfræðipakka á okkur og við getum þakkað þeim fyrir það og þeir eiga þetta skuldlaust,“ sagði Jón sem er einn af þeim fjölmörgu leikmönnum sem þjálfarar KR þeir Bendikt og Ingi Þór hafa þjálfað frá ómunatíð.
,,Ég ber mikla virðingu fyrir mínum núverandi þjálfara og landsliðsþjálfaranum en Benni er bara snillingur og hann sýndi það eftir leik 3 á móti Grindavík. Hann tók alla þyngdina á sínar herðar, kom okkur niður á jörðina og eftir það vorum við bara afslappaðir og gerðum hlutina saman. Við hættum að hugsa þannig að við yrðum að vinna til að tapa ekki. Okkur langaði til þess að vinna fyrir okkur,“ sagði Jón Arnór Stefánsson besti leikmaður úrslitakeppninnar leiktíðina 2008-2009.