spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaJólunum er ekki lokið í Njarðvík

Jólunum er ekki lokið í Njarðvík

Keflavík tók á móti Njarðvík í Blue höllinni í kvöld. Njarðvíkingar mættu með óbreytt lið frá því fyrir áramót. Logi Gunnarsson var þó ekki með en hann hefur verið að glíma við meiðsli á nára og þarf svona tvær vikur í viðbót. Keflvíkingar höfðu hins vegar bætt í. Reyndar er Guðmundur Jónsson meiddur á fæti og verður ekki með fyrr en í fyrsta lagi í mars. En til Keflavíkur var kominn aftur Mantas Mokevicius sem skrapp heim til Litáen í „viku“. Með honum kom Mndaugas Kacinas sem spilaði sinn fyrsta leik í kvöld.

Njarðvíkingar gátu komist á topp deildarinnar með sigri en Keflvíkingar höfðu harm að hefna síðan í Ljónagryfjunni fyrr í vetur.

Það tók 2 mínútur og 7 sekúndur að skora fyrstu stigin og það voru heimamenn sem settu þau. Mikill hiti og ákafi í vörn beggja liða. Stúkan stútfull og áhorfendur beggja liða létu vel í sér heyra. Liðin skiptust á að jafna og leiða og það bættist verulega í stigin eftir því sem leið á leikhlutann. Staðan eftir fyrsta leikhluta 24 – 22.

Stemningin var hreint rafmögnuð og liðin héldu áfram að dansa, skiptast á körfum, glæsileg tilþrif hægri vinstri. Greinilegt að leikmenn ætluðu ekkert að gefa eftir. Um miðbik leikhlutans tókst Njarðvíkingum að komast tveim körfum frá Keflavík. Njarðvík komst svo 8 stigum yfir þegar 4 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Njarðvíkingar héldu áfram að bæta í og voru komnir 12 stigum yfir þegar um 2 og hálf mínúta voru eftir af leikhlutanum. Staðan í hálfleik 35 – 50.

Skotin duttu hjá Njarðvík á meðan þau gerðu það ekki hjá Keflavík þegar líða fór á annan leikhluta. Njarðvík var líka að frákasta miklu betur en Keflavík 16 – 24. Kelvíkingar réðu svo ekkert við Elvar Már Friðriksson sem var með 21 stig og 8 fráköst í fyrri hálfleik.

Keflvíkingar kröfsuðu og kröfsuðu í þriðja leikhluta en Njarðvíkingar héldu þeim vel frá sér. Keflvíkingarnir voru líka ekki að setja opin þriggja stiga skot. Þegar um þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum fóru skotinn loksins að detta hjá Keflavík og þeir náðu að minnka muninn niður í 6 stig. Staðan fyrir fjórða leikhluta 60 – 64 og ljóst að það stefndi allt hörku fjórða leikhluta.

Það voru mikil læti fyrstu mínútur fjórða leikhluta. Skotklukkan rann út tvisvar og Elvar Már fékk á sig tæknivillu fyrir röfl. Njarðvíkingar tóku leikhlé þegar tæpar 6 mínútur voru eftir og staðan 67 – 68. Kristinn Pálsson fór út af með 5 villur þegar tæpar 3 mínútur voru eftir í stöðunni 74 – 73. Njarðvíkingar áttu mjög góðar tvær mínútur og þegar rétt rúm mínúta var eftir var staða 78 – 82 þeim í vil. Í stöðunni 82 – 84 þegar um 20 sekúndur voru eftir fór Elvar Már á vítalínuna en klikkaði á báðum vítum. En hann tók frákastið úr seinna vítinu og það var svo brotið á Ivey sem setti bæði og kom Njarðvíkingum í 82 – 86 með 13,6 á klukkunni. Hörður Axel setti niður þrist og staðan 85 – 86 og 10 sekúndur eftir. Njarðvík með boltann. ÞVÍLÍKUR LEIKUR! Keflvíkingar brutu á Elvari sem setti bæði og Keflvíkingar sem höfðu um 7 sekúndur til að gera eitthvað brást bogalistinn. Sigur Njarðvíkur því í höfn. 85 – 88.

Byrjunarlið:

Keflavík: Gunnar Ólafsson, Mndaugas, Kacinas, Reggie Dupree, Hörður Axel Vilhjálmsson og Michael Craion.

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Jeb Ivey, Kristinn Pálsson, Maciek Baginski og Mario Matasovic.

Þáttaskil:

Glæsilegur annar leikhluti Njarðvíkinga skóp þennan sigur. Þeir gerðu mjög vel að halda Keflvíkingum frá sér og hleyptu þeim aldrei langt fram úr sér. Lokamínúturnar voru æsispennandi og Njarðvíkingar fóru heim með glæsilegan sigur.

Tölfræðin lýgur ekki:

Liðin voru svipuð í tölfræðinni enda jafn leikur. Njarðvíkingar hittu þó betur á vítalínunni og þau stig eru dýr þegar á hólminn er komið. 11/18 61% – 22/25 88%.

Hetjan:

Gunnar Ólafsson og Hörður Axel Vilhjálmsson áttu fínan leik. Nýi maðurinn Mndaugas, Kacinas var einnig góður og skilaði 20 stigum og 8 fráköstum. Það var þó Michael Craion sem var bestur Keflvíkinga með 34 stig og 11 fráköst.

Maciek Baginski og Jeb Ivey áttu mjög fína leik, Ivey var sérstaklega drjúgur á lokamínútunum eins og honum einum er lagið. En Elvar Már Friðriksson 32 stig og 12 fráköst var lang bestur Njarðvíkinga, þótt það hafi farið lítið fyrir honum í þriðja leikhluta.

Kjarninn:

Sláturhúsið var stútfullt og það var sannkallaður úrslitakeppnis bragur á leiknum. Leikur þessara liða er ávallt góð skemmtun og kvöldið í kvöld engin undantekning. Tvö frábær körfuboltalið áttust við og bæði liðin hefðu getað farið heim með sigurinn. Njarðvík kláraði dæmið og er nú á toppi deildarinnar.

Myndir

Tölfræði

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -