Jólafríið er komið í körfuboltanum á Íslandi. Það er ótrúlega algengt að jólafríið í körfuboltanum sé um svipað leiti og Jesú Kristur Jósepsson á að hafa fæðst, svo algengt að hallast má að því að ekki sé um tilviljun að ræða. Æfingarnar um jólin eru alltaf skemmtilegar fyrir „hornamenn“. Það eru þeir kallaðir sem eru yfirleitt út í horni að skjóta þegar raunverulega liðið er að spila fimm á fimm á fullan völl. Jólin eru tíminn sem kaninn fer heim, tíminn sem löskuðu mennirnir taka sér smá pásu til að koma skrokknum í lag og tíminn sem gæjarnir sem fá alltaf að spila nóg taka sér frí til að fara erlendis með fjölskyldunni, eitthvað sem þjálfarinn (lesist Sigurður Ingimundarson) myndi froðufella yfir ef hornamaðurinn myndi gera því þá væri augljóst að hann væri ekki með forgangsröðunina á hreinu. Með öðrum orðum eru jólin tíminn sem maður fékk loksins að vera með í fimm á fimm á fullan völl – nema hvað að kvarnast hafði svo mikið úr hópnum að maður mátti teljast heppinn ef það náðist í fjóra á fjóra á eina körfu. Og þar sem það voru auðvitað níu á þessum æfingum, nú þá hóf maður leik út í horni…
Eins og áður hefur verið ritað í þessum pistlum þótti ég ansi liðtækur hornamaður á mínum upphafsárum í Keflavík. Óvíst er að til sé sá leikmaður í sögu íslensks körfubolta sem eytt hefur jafn mörgum mínútum á hornkörfum og undirritaður. Blessunarlega var ég nú laus úr viðjum hornsins þegar ég lék mitt síðasta tímabil í úrvalsdeild. Þetta var tímabilið 2008-2009 en það ár spilaði ég fyrir Njarðvík eins og frægt er orðið. Vafalaust er hvergi verra að vera hornamaður en í Njarðvík enda er ljónagryfjan svo lítil að þar er lítið annað fyrir þá að gera sem ekki eru á gólfinu en að sitja í hinum dúnamjúku sætum í stúkunni eða henda sér í sund með ellilífeyrisþegunum í kjallaranum.
Margir hafa spurt mig hvernig í ósköpum það æxlaðist að ég fór í Njarðvík. Þrátt fyrir að hafa verið einn helsti aðdáandi félagsins til níu ára aldurs þegar Kristinn Einarsson frændi minn, skemmtilegasti leikmaður í sögur Njarðvíkur, lék þar æfði ég alltaf með Keflavík og lærði þar að elska bláa litinn en hálfpartinn hata þann græna. Aðdragandinn að þessum félagaskiptum var í stuttu máli sá að Njarðvíkingar höfðu mikinn áhuga á að fá Magnús Þór Gunnarsson, æskuvin minn, yfir í Njarðvík. Þó áhuginn á því að fá undirritaðan sem uppfyllingarefni í laskaðan hóp, hálfgert kítti í hriplekan vask, var öllum ljóst að stórstjarnan Magnús Þór var heitari biti en 1. deildar goðsögnin*. Nú ég sem mikill vinur Magnúsar Þórs hugsaði mér auðvitað gott til glóðarinnar. Nú skildi „hornamaðurinn“ loksins fá eitthvað fyrir sinn snúð! Við félagarnir vorum boðaðir á fund félagsins og talaði ég Magnús Þór inn á að best væri að ég færi fyrstur inn og hann myndi svo fylgja í kjölfarið. Hugsunin mín var skýr – nú skildi ég narra fram tímamótasamning – sko, fyrir sjálfan mig. Gaf ég forráðamönnum Njarðvíkur skýrt til kynna að ef þeir gengju að kröfum mínum væri Magnús Þór ansi líklegur að koma líka. Ekki skrítið að maður hafi fengið háar einkunnir í samningatækni! Eftirleikurinn var auðveldur. Eftir að ég hafði grenjað út einhverjar úttektir og selt Magnúsi Þór þá æðislegu hugmynd að nú loksins gætum við félagarnir spilað saman, því þó við hefðum jú æft saman með meistaraflokki Keflavíkur í mörg ár fór lítið fyrir því að við spiluðum saman því yfirleitt var Magnús Þór hvíldur þegar mér var sýnt traustið síðustu 47 sekúndur leikjanna sem unnust með 40+ stigum, skiptum við félagarnir í Njarðvík á tímamóta samningum. Var það fyrst í sumar sem ég hætti að nota Outback grillið úr Húsasmiðjunni sem Magnús gaf mér sem „Agent-Fee“ fyrir vel unnin störf.
En nóg af goðsögnum, flísberum og hornamönnum. Ræðum það helsta þegar Domino´s deildirnar eru hálfnaðar.
?- Keflavík situr á toppi Domino´s deildar karla um jólin í fyrsta skipti frá því Andy Johnston þjálfaði liðið. Það tímabil var liðið tekið þrisvar í Stjörnuna í 8-liða úrslitum án þess að geta svarað fyrir sig. Mönnum er því líklega ljóst að það er í mars sem hlutirnir hefjast þó það hafi reyndar ekki sýnt sig síðastliðin fjögur ár…
?- Öllum að óvörum eru Haukastúlkur efstar í Domino´s deild kvenna. Kom mér jafn mikið á óvart og um svipað leiti í fyrra þegar ég komst að því að það er mamma sem hefur verið að gefa mér í skóinn öll þessi ár…
– Besti sóknarmaður Domino´s deildar kvenna er Helena Sverrisdóttir því þótt hún skori kannski ekki mest er hún að mata félaga sínum með stoðsendingum. Jón Halldór talaði um það í síðasta körfuboltakvöldi að hún væri ekki í formi. Þegar maður sem er í kökuformi talar þá leggjum við hinir við hlustir. Ef það er ekki að vera í formi að vera með þrennu að meðaltali í leik nú þá býð ég ekki í það hvernig hún væri í formi…
– ? Besti sóknarleikmaður Domino´s deildar karla fyrri hluta tímabilsins að mínu mati hefur verið leikmaðurinn sem Earl Brown er að dekka. Sá hefur heldur betur verið á eldi…
– ? Besti varnarmaður Domino´s deildar karla er án efa Reggie Dupree í annars hriplekri Keflavíkurvörn. Kvennameginn er það auðvitað Pálína Gunnlaugsdóttir. Það mætti virkja álver, kísilver, gagnaver og Magnús Ver með orkunni sem leynist í þessum mennsku kjarnorkuboltum sem þau tvö eru…
– ?Regnskógar heimsins fá ekki frí þessi jólin frekar en önnur jól. Það er ekki bara vegna allra jólakortanna því nú hefur Oddur Kristjánsson beðið um að fá sig leystan undan samningi við ÍR. Auðvitað var kominn tími á að færa sig enda hefur hann verið rúmlega eitt tímabil með sama liðinu og lítur út fyrir að Njarðvík verði hans sjöunda lið á fimm árum. Ferilskrá leikmannsins er orðin svo löng að það verður kominn lækning við skalla (jú, skalli er sjúkdómur) áður en manni tekst að ljúka við lestur þess mikla doðrants. Allt hið eðlilegasta mál enda hlýtur leikmaður sem gerður er að fókuspunkti í sóknarleik liðs þar sem spilar rúmar 30 mínútur í leik hjá nýjum þjálfara að vera brjálaður. Eða var hann kannski fúll yfir því að liðið var loks farið að vinna leiki? Frammistaða viðkomandi gegn KR benti allavega til þess…
– ? Hvað er annars málið með Njarðvík? Eru þeir búnir að ræða við hvern einasta samningsbundna leikmann sem sést hefur í námunda við körfuboltavöll á Íslandi? Sagt er að sjórinn gefi og sjórinn taki en frá því ungur uppalinn leikmaður var tekinn frá þeim sægrænu í sumar við mikil harmakvein hefur vart verið sá leikmaður sem þeir hafa ekki reynt að taka frá öðrum liðum. Undirritaður er með símann stilltan á silent yfir jólin enda aldrei að vita nema Gunni Örlygs heyri í mér og boði mig á fund. Það sem kemur þó líklega í veg fyrir símtal frá Gunna er að ég kunni aldrei að drippla boltanum og er þar að auki ekki samningsbundinn neinum…
– Persónulega hefur Grindavík komið mér nokkuð á óvart kvennameginn. Bjóst ekki við þeim svona ofarlega eftir að hafa misst Pálínu, en þar fór mikill sigurvegari og baráttuhundur, og þó þær hafi styrkt sig með öðrum leikmönnum eiga þær skilið hrós fyrir frammistöðu sína fyrri hluta vetrar…
– ? Á sama tíma hefur karlalið Grindavíkur komið á óvart fyrir slaka frammistöðu. Bjóst við þeim mun sterkari enda liðið með gríðarlega hæfileika inn á milli. Gæti þó verið að meiðsli og eymsli setji strik í reikninginn og því líklegt að þeir séu sofandi risi sem vakni þegar nær dregur úrslitakeppni og góður kani lítur dagsins ljós…
– ? Talandi um kana. Þeir hafa nokkrir fengið að fjúka í jólamánuðnum. Það má til sannsvegar færa að þeir hafi allir átt það skilið blessaðir. Annaðhvort er íslenska deildin orðin svona sterk eða það sem er líklegra að kanarnir sem hingað koma eru orðnir lélegri því annað eins saman safn fúnum rekavið hefur ekki rekið hér á land í árabil. Hvar er Jimmy Miggins? Tja, segi ykkur fleiri sögur af þeim kappa á nýju ári…
Jólakveðja,
Sævar Sævarsson
*Á þessum tíma hafði ég lokið þremur tímabilum með Breiðablik í 1. deild og vorum við nýbúnir að tryggja sæti liðsins í efstu
deild. Það skal viðurkennt að „goðsögn“ er kannski heldur djúpt í árina tekið en í ljósi þess að það er ansi ólíklegt að nokkur
annar pistlahöfundur muni nota þetta hugtak um undirritaðan fannst mér tilvalið að lýsa sjálfum mér með þessum hætti.