spot_img
HomeFréttirJólaslenið runnið af KR-ingum - áfram í undanúrslit bikarsins

Jólaslenið runnið af KR-ingum – áfram í undanúrslit bikarsins

KR og Njarðvík mættust í DHL höllinni í kvöld til að útkljá hvort liðið færi í undanúrslit Powerade bikarsins. Þessi lið höfðu áðum mæst í DHL höllinni í Domino's deildinni í lok október þar sem KR sigraði örugglega með 29 stigum. Njarðvíkingar voru án erlends leikmanns í kvöld og því á brattann að sækja fyrir þá.

 

Þeir grænu mættu hins vegar tilbúnir til leiks framan af og var leikurinn í járnum lengst af í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að gestunum tækist að tapa 7 boltum á fyrstu 10 mínútunum. Það var ekki fyrr en í lok fyrri hálfleiks að Njarðvíkingar fóru að dragast hægt og rólega aftur úr Íslandsmeisturunum. Skotin hættu að detta og vörnin slaknaði. KR-ingar gengu á lagið og náðu 7 stiga forystu, 46-39 áður en fyrri hálfleik lauk.

 

Njarðvíkingar stóðu enn keikir en það eimdi örlítið af því sem koma skyldi í seinni hálfleik.

 

Skilvirkni sóknarleiks Njarðvíkur féll töluvert í lok fyrri hálfleiks og hélt áfram að molna niður í þriðja hluta – skorandi aðeins 0,6 að meðaltali í hverri sókn. Gestirnir áttu í vandræðum með að koma boltanum niður í körfuna lengi vel en á meðan voru Vesturbæingar að hitna. Brynjar Þór fann fjölina sem hann leitaði logandi ljósi að í tapleik KR gegn Stjörnunni á föstudaginn sl. en hann setti hvert risaskotið á fætur öðru undir lok leiks auk þess sem enginn réð neitt við hamfarir Michael Craion í teignum. 

 

Njarðvíkurliðið beit í skjaldarrendur í fjórða hluta, passaði boltann vel með aðeins 3 tapaða bolta og hittu vel úr skotum sínum. Skilvirkni sóknarleik liðsins stökk í 1,16 stig að meðaltali í sókn en KR-ingar gáfu ekkert eftir. Njarðvík tókst ekki að brúa bilið í fjórða hluta þrátt fyrir galvaskar tilraunir og innsigluðu KR-ingar sanngjarnan 16 stiga sigur, 90-74.

 

Michael Craion leiddi sína menn í KR með 26 stig og 10 fráköst auk þess að stela 4 boltum og verja 3 skot. Brynjar bætti svo við 16 stigum. Hjá Njarðvík var Haukur Helgi frábær með 27 stig og 15 fráköst, Oddur Rúnar átti mjög mikilvægar körfur í seinni hálfleik auk þess sem Ólafur Helgi átti einnig fínan leik. 

 

Myndasafn:  JBÓ

 

KR-Njarðvík 90-74 (19-22, 27-17, 20-12, 24-23)
KR: Michael Craion 26/10 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Brynjar Þór Björnsson 16/4 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 11, Ægir Þór Steinarsson 9/5 fráköst/8 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 8/5 fráköst, Darri Hilmarsson 8/4 fráköst, Helgi Már Magnússon 5/5 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 5, Pavel Ermolinskij 2/6 fráköst, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Arnór Hermannsson 0, Andrés Ísak Hlynsson 0. 
Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 27/15 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 19/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 15, Hjörtur Hrafn Einarsson 10/4 fráköst, Logi  Gunnarsson 3, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Hilmar Hafsteinsson 0, Hjalti Friðriksson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Maciej Stanislav Baginski 0.

Fréttir
- Auglýsing -