5 leikir voru háðir í NBA deildinni í gærkvöldi og fram á nótt. Við hefjum leik í Los Angeles þar sem að tveir leikir fóru fram í sama húsinu. Fyrst voru það Lakers sem virðast vera að eflast með endurkomu Steve Nash til liðsins. Þeir sigruðu NY Knicks í gærkvöldi með 100 stigum gegn 94 og þar með sinn 5. leik í röð. EFstu menn stigaskorunarlistans mættust í þessum leik og báðir settu þeir niður 34 stig (Anthony og Bryant)
Eftir að starfsmenn Stapels Center höfðu svo skipt út gólfinu og plantað nýju parketi yfir “Lakers parketið” gátu Clippers hafið leik gegn Denver Nuggets. Stuðningsmenn Clippers hljóta að eiga skilið orðu fyrir þolinmæði gagnvart liði sínu sem nú loksins virðist liðið ætla sér einhverja stóra hluti í þessari deild. 14. sigurleikurinn í röð leit dagsins ljós hjá Clippers með 112:100 sigri á Nuggets og er það met hjá félaginu. Hér er setning sem undirritaður hélt að hann myndi aldrei skrifa, Los Angeles Clippers eru sum sé efstir í NBA deildinni eftir gærkvöldið!! Gæfumuninn í gærkvöldi voru þeir Matt Barnes og Jamal Crawford sem komu af bekknum og settu saman 42 stig fyrir Clippers.
Í New York voru það svo stórveldið í norðaustri, Boston Celtics sem heimsóttu “nýliða” Brooklyn Nets. Uppúr sauð síðast þegar þessi lið mættust og endaði það í því að Rajon Rondon var rekinn út og fékk 2ja leikja bann. Leikurinn í gær var við suðumark en leikmenn voru í jólaskapi en skiptust svo sem ekkert á gjöfum þrátt fyrir það. En það voru Boston Celtics sem voru sterkari í þessum leik og Rajon Rondo sendi tóninn með 19 stigum og svo var það nýliðinn frá Ohio, Jarred Sullinger sem setti niður 18 stig. Hjá Brooklyn voru Gerald Wallace og Brook Lopez báðir með 15 stig, aðrir voru enn að melta steikina frá aðfangadegi.
Stórleikur kvöldsins var svo án nokkurs vafa liðin sem börðust um þann stóra í fyrra, meistarar Miami og silfurhafarnir í Oklahoma. Leikurinn var frábær skemmtun, fjölda tilþrifa og jafnt allt fram á síðustu sekúndu leiksins. Í lokin voru það hinsvegar Miami sem náðu að hanga á sigrinum en Oklahoma fengu tvö ágætis tækifæri til að jafna með skotum frá Durant og Westbrook. Dómarar leiksins voru hliðhollir meisturunum á lokasprettinum því í loka skoti Westbrook þá braut Dwayne Wade augljóslega á Westbrook en þeir gráklæddu voru eflaust orðnir langþreyttir eftir að bíða eftir sinni jólasteik og flautuðu ekkert. 103:97 sigur Miami leit dagsins ljós eftir að Allen og Bosh settu niður víti á lokasekúndunni. Talandi um víti þá settu Miami niður öll þau 18 víti sem þeir fengu í leiknum.