spot_img
HomeFréttirJohnson rekinn frá Nets

Johnson rekinn frá Nets

Nýliðarnir í Brooklyn Nets hafa látið þjálfara sinn Avery Johnson víkja úr starfi. Þetta tilkynnti, Billy King, framkvæmdastjóri Nets í dag. Enn hefur ekki komið fram hver taka muni við keflinu af Johnson en liðið leikur gegn Charlotte Bobcats annað kvöld.
 
Nets hafa tapað 10 af síðustu 13 leikjum sínum og standa nú í yfirþyrmandi skugga stóra bróður í Knicks sem jafnan er viðmiðið hjá Nets þessi dægrin.
 
Stjarnan Deron Williams kvartaði nýverið undan sóknarleiknum hjá Johnson og ljóst að skæll í hetjunni hefur haft sitthvað að segja í því að grafa undan Johnson í þjálfarastól.
 
Johnson er aðeins annar þjálfarinn á þessu tímabili sem fær reisupassann en Mike Brown var fyrr á tímabilinu rekinn úr þjálfarastól Lakers eins og frægt er orðið. Nets eru þó ekki á flæðiskeri staddir og munu vísast ráða til sín einhverja bombu í þjálfarastól enda eigandinn Prokhorov vel settur fjárhagslega.
  
Fréttir
- Auglýsing -