spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaJóhann: Tökum bara næstu áskorun

Jóhann: Tökum bara næstu áskorun

Jóhann Ólafs, þjálfari Grindvíkinga, hélt sér á jörðinni þrátt fyrir frábæran sigur:

Frábær sigur hjá ykkur í kvöld, hver var þín sýn á leikinn?

Við vorum bara mjög flottir á báðum endum. Þeir enda að vísu í 85 stigum en það voru einhver ruslastig í restina. En mér fannst við varnarlega flottir og sóknarlega vorum við að finna góð look. Bara flott heildarframmistaða og tvö stig í bónus sem við fáum að taka með heim.

Ekki að ég vilji gera lítið úr sigrinum en mér fannst KR-ingarnir ansi andlausir og komust aldrei almennilega í gang?

Jah, er það ekki bara gamla klisjan að það spilar enginn betur en andstæðingurinn leyfir. Við vorum hörku góðir og ég ætla ekki að taka það frá okkur. Sérstaklega var ég ánægður með síðustu þrjá leikhlutana og einkum með annan og þriðja, þar vorum við bara fantagóðir og það skóp þennan sigur.

Mér sýnist þið vera búnir að finna svolítinn takt, nú hafið þið spilað nokkra leiki með þessum mannskap, er það ekki svolítið það sem er að gerast hjá ykkur?

Jújú, klárlega, þetta er fimmti leikurinn sem þetta lið spilar saman og í fjórum af þeim höfum við verið að setja upp fantagóðar frammistöður. Nú kemur landsleikjahlé og fáum ennþá meiri tíma til að æfa vel og gera betur, það er fullt af jákvæðum punktum hjá okkur en alltaf eitthvað sem er hægt að gera betur.

Menn hafa verið að gagnrýna það að þið skylduð fá Clinch til ykkar. Það get ég ekki skilið og þú væntanlega ekki heldur, hann var flottur í kvöld og virðist bara fara vaxandi?

Lewis Clinch er hörku leikmaður, hann eins og allir eiga sína daga og sína off-daga. Ég hef heyrt eitthvað af þessari gagnrýni í þessum þætti þarna í sjónvarpinu en ég veit það ekki, er þetta ekki bara til að búa til sjónvarp, eigum við ekki bara að segja það?

Bamba kemur mjög vel inn í þetta hjá ykkur og Kuiper virðist fara vaxandi – þú hlýtur að vera bara mjög ánægður með stöðuna á liðinu eins og hún er núna?

Jújú…eins og ég sagði áðan þá er fullt af jákvæðum punktum en við getum orðið betri, við munum koma til með að nýta tímann vel, það hefur verið stígandi í þessu í undanförnum leikjum og það er bara undir okkur komið hvort það verði áfram eða ekki.

Sérðu fyrir þér að þið gætuð jafnvel blandað ykkur í topp fjögur baráttuna?

Jah…ég er rólegur! Taflan lýgur ekki, við erum búnir að vinna 3 leiki til þessa og við tökum bara næstu áskorun.

Fréttir
- Auglýsing -