22:38
{mosimage}
(Jóhann Árni Ólafsson)
Í dag kvisaðist það út að Njarðvíkingurinn Jóhann Árni Ólafsson ætlaði sér að söðla um og ganga til liðs við erkifjendurna í Keflavík. Víkurfréttir greindu fyrstir frá málinu og þá kom fram að Jóhann myndi ganga frá samningi við Keflavík í hádeginu í dag. Enginn samningur hefur verið gerður og enn er óvíst hvar Jóhann leiki á næstu leiktíð. Karfan.is náði á Jóhann Árna sem var áðan að koma af landsliðsæfingu en hann sagðist hafa verið í viðræðum við nokkur lið þegar fréttirnar láku út í dagsljósið.
,,Staðreyndin er einfaldlega sú að ég var að hugsa mín mál þegar þessar fréttir láku út, ég viðurkenni það alveg fúslega að hafa verið í viðræðum við Keflavík og reyndar önnur lið,“ sagði Jóhann Árni sem lék atvinnubolta með Proveo Merlins í Þýskalandi á síðustu leiktíð. Fyrir nokkru var það vitað að Jóhann myndi ekki semja að nýju við Merlins og eflaust hugsuðu margir sér gott til glóðarinnar ef leikmaðurinn yrði á Íslandi næstu leiktíð.
,,Það er virkilega erfitt að taka ákvörðun í þessu máli og ég hef eytt miklum tíma í að hugsa um þetta og fréttirnar sem láku út í dag hjálpuðu ekki til,“ sagði Jóhann sem hefur mikinn áhuga á því að komast á nýjan leik út í atvinnumennskuna.
,,Ef ég sem við lið á Íslandi þá verður klásúla í samningnum sem gerir mér kleift að komast út ef tilboð berst,“ sagði Jóhann og því er alls ekki útséð með hvar landsliðsmaðurinn bjóði fram krafta sína á næstu leiktíð.