Joel Embiid hatar ekki athyglina og hefur nú komið sér í sviðsljósið enn eina ferðina. Í leik Philadelphia 76ers og Detroit Pistons náði Embiid að senda Andre Drummond út úr húsinu með því að floppa all hressilega í samstuði við hann.
Þessir stóru strákar voru að berjast í teignum þegar Embiid setur snyrtilegt sveifluskot í körfuna en í þá mund rekur Drummond upp handlegginn og fljótt á litið virðist hann gefa þeim fyrrnefnda hressilegt olnbogaskot í andlitið. Embiid fellur niður og Drummond uppsker sína aðra tæknivillu í leiknum og rekinn út úr húsi.
Embiid var fljótur að fíflast í áhorfendum og lét þau öll vita að hann hafi nú sent Drummond í sturtu. Endursýning sýnir hins vegar að Embiid floppaði grimmilega í þessum samskiptum þeirra og það verður forvitnilegt að sjá hvað deildin gerir í framhaldinu. Hvort seinni tæknivilla Drummond verði tekin til baka og einnig hvort Embiid fái flopp-sekt. Pistons unnu samt leikinn með 50 stig frá Blake Griffin.