Jeb Ivey, sem spilað hefur með nokkrum liðum hér á Íslandi, á heimsmetið í flestum leikjum í röð sem atvinnumaður með einn eða fleiri þrist skoraðan. Þetta hefur verið staðfest af Heimsmetabók Guinness.
Eftir að ljóst var að Jeb hafði sett met í Finnlandi með 83 leiki í röð fór Whitney, eiginkona Iveys, að taka saman þessa heildartölfræði hjá manninum sínum.
Þá kom í ljós að Ivey hefur ekki farið af gólfinu án þess að setja niður þrist í 177 leikjum í röð sem atvinnumaður. Þessi hrina hófst árið 2010 þegar hann lék í Finnlandi og lauk árið 2013 þegar hann lék í Frakklandi, þar sem hann er enn.
Metið hans Kyle Korver í NBA yfir 127 leiki í röð með einn þrist eða fleiri er dvergvaxið við hliðina á afreki Jeb Ivey, heilum 50 leikjum færri.
Ivey skoraði að meðaltali 3,6 þrista í leik á tímabilinu 2003-2007 þegar hann lék með KFÍ, Fjölni og Njarðvík og hitti fáránlega vel eða að meðaltali 45,3% á þessu tímabili. Ivey lék með Snæfelli síðast þegar hann var á Íslandi.