spot_img
HomeFréttirJasikevicius hættir eftir glæstan feril

Jasikevicius hættir eftir glæstan feril

Hinn frábæri leikmaður Sarunas Jasikevicius hefur lagt skóna á hilluna en að baki er magnaður atvinnumannaferill. Jasikevicius er þó hvergi nærri farinn frá körfubolta þar sem hann verður aðstoðarþjálfari hjá Zalgiris Kaunas í sínum heimabæ en Jasikevicius lék með Kaunas síðastliðið tímabil.
 
 
Jasikevicius er 38 ára gamall Lithái sem hefur verið einn helsti prímusmótor í landsliði Litháen síðustu ár. Jasikevicius segir skilið við boltann sem eini leikmaðurinn til að verða Evrópumeistari með þremur mismunandi félögum. Hans fyrsti titill í Euroleague var með Barcelona árið 2003, tímabilið á eftir eða 2004 varð hann Evrópumeistari með Maccabi Tel Aviv og varð hann þá fyrsti leikmaðurinn til þess að vinna titilinn tvö ár í röð með tveimur mismunandi klúbbum. Þriðji Evrópumeistaratitillinn kom aftur með Tel Aviv og hafði kappinn þá unnið þrjú ár í röð. Sá fjórði og síðasti í röðinni var með Panathinaikos árið 2009.
 
Í meira en áratug var Jasikevicius einn fremsti leikmaður litháíska landsliðsins en árið 2003 var hann valinn besti leikmaður EuroBasket eftir að hafa leitt Litháen til gullverðlaunanna. Hann var í bronsliði Litháen á Ólympíuleikunum í Sydney en hann hefur verið í landsliðsbúningi Litháen á fjórum Ólympíuleikum, einni heimsmeistarakeppni og sex Evrópukeppnum.
 
Saras eins og hann er oftast kallaður varð meistari með Kaunas í Litháen síðasta tímabil en hann fór ungur til Bandaríkjanna í miðskóla og hélt þaðan til Maryland. Atvinnumannaferill hans hófst með Lietvous Rytas í Litháen, þaðan lá leiðin til Slóveníu og svo til Barcelona. Eins og áður hefur komið fram var hann einnig á mála hjá Maccabi Tel Aviv og í NBA deildinni lék hann með Indiana og Golden State áður en hann snéri aftur til Evrópu og þá til Panathinaikos og kvittar sig út sem meistari í Litháen með Kaunas.
 
Árið 2008 var Saras heiðraður af Euroleague fyrir sitt framlag en Euroleague er einkaaðili sem heldur utan um Evrópukeppni bestu félagsliða álfunnar. Sérdeilis aðdáunarverður ferill að baki hjá þessum öfluga leikmanni og nokkrir af fremstu körfuknattleiksmönnum Íslands geta m.a. státað af því að hafa mætt honum á vellinum í landsleikjum.
 
Svipmyndir af ferli Sarunas Jasikevicius
 
Mynd/ Euroleague
  
Fréttir
- Auglýsing -