spot_img
HomeFréttirJarryd Cole kláraði Fjölni (umfjöllun)

Jarryd Cole kláraði Fjölni (umfjöllun)

Keflavík tryggði sér áframhaldandi keppnisrétt í Powerade bikarnum í kvöld með öruggum sigri á Fjölni í Grafarvoginum 83- 102.  Keflavík leiddi allan leikinn og gaf hvergi eftir með sterkum varnarleik og yfirburðamann, Jarryd Cole í fararbroddi.  Jarryd Cole var bókstaflega óstöðvandi undir körfunni í kvöld og skoraði 35 stig, hirti 13 fráköst með 63% nýtingu sem getur ekki talist slæmt.  
Keflavík tók strax af skarið og höfðu frumkvæðið á fyrstu mínútum leiksins.  Varnarleikur Keflvíkinga skilaði sínu og gestirnir höfðu 10 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 17-27.  Keflvíkingar héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og tókst að loka á flesta sóknarmöguleika Fjölnis.  Þegar 8 leikmenn Keflavíkur voru komnir á blað um miðbik annars leikhluta höfðu aðeins þrír leikmenn skorað stig fyrir Fjölni.  Jón Sverrisson fór þá fyrir sínum mönnum á meðan illa gekk hjá öðrum leikmönnum liðsins að finna glufur á sterkri vörn Keflavíkur.  Þegar flautað var til hálfleiks höfðu Keflvíkingar náð 18 stiga forskoti, 35-53.  
 

Stigahæstur í liði Keflavíkur í hálfleik var Jarryd Cole með 20 stig en næstir voru það Charlie Parker með 9 stig og Magnús Gunnarsson með 6 stig.  Hjá Fjölni var Jón Sverrisson stigahæstur með 15 stig en næstir voru Nathan Walkup með 10 stig og Calvin O’Neal með 5 stig.  

Fjölnismenn freistuðu þess að pressa á Keflvíkinga í þriðja leikhluta sem reyndist þeim þó ekki mjög vel.  Keflvíkingar skoruðu 20 stig á heimamenn á fyrstu 7 mínútum leikhlutans og munurinn á liðunum var 25 stig, 50-75.  Fjölnismönnum tókst lítið að rétta sinn hlut á lokamínútum leikhlutans og þegar einn leikhluti var eftir munaði 24 stigum, 58-82.  

Fjölni tókst að minnka muninn á fyrstu mínútum fjórða leikhluta og munurinn var kominn niður í 17 stig þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar, 67-84.  Fjölnir hafði þá skorað 9 stig gegn fyrstu 2 stigum Keflavíkur.  Þessi góði kafli heimamanna endist þó ekki nógu lengi og Keflvíkingar hleyptu  þeim ekki nær.  Yngri leikmenn fengu að spreyta sig á lokakaflanum hjá báðum liðum og úrslitin ráðin.  Keflavík hafði á endanum 19 stiga sigur, 83-102.  

 

Mynd: [email protected]

Umfjöllun:  [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -