spot_img
HomeFréttirJárnvilji Keflavíkurkvenna landaði sigri

Járnvilji Keflavíkurkvenna landaði sigri

22:28

{mosimage}

 

Keflavíkurkonur stóðu uppi sem sigurvegarar í Sláturhúsinu í kvöld eftir ærslafullar lokamínútur þegar Grindavíkurkonur komu í heimsókn. Leikurinn var sá fyrsti í undanúrslitaeinvígi liðanna í úrslitakeppninni en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í úrslitin. Lokatölur leiksins voru 87-84 Keflavík í vil þar sem svæðisvörn heimakvenna lokaði hreinlega leiðinni upp að körfunni og þá sér í lagi í fjórða leikhluta. Staðan er því 1-0 Keflavík í vil en liðin mætast að nýju í Grindavík á laugardag.

 

Gestirnir úr Grindavík léku á als oddi í upphafi leiks þar sem Tamara Bowie fór mikinn. Reyndar var hún óstöðvandi í fyrri hálfleik og gerði 30 stig í hálfleiknum. Takesha Watson gerði fyrstu fjögur stig leiksins en eftir það náðu Grindvíkingar yfirhöndinni og leiddu allan fyrri hálfleikinn. Staðan að loknum 1.leikhluta var 17-19 Grindavík í vil þar sem Petrúnella Skúladóttir skoraði úr sniðskoti þegar fjórar sekúndur voru eftir af leikhlutanum.

 

Keflavík jafnaði leikinn í 19-19 strax í upphafi annars leikhluta en þá hófu gestirnir sig á flug og gerðu næstu sex stig og staðan 19-25. Tamara Bowie fór hreinlega á kostum og þegar Keflavíkurkonur voru að tví-eða þrídekka Bowie losnaði um skyttur Grindavíkur sem skiluðu niður góðum körfum. Birna Valgarðsdóttir kom inn á í liði Keflavíkur þegar nokkrar mínútur voru liðnar af 2. leikhluta en gert var ráð fyrir því að hún yrði ekki með í úrslitakeppninni. Annað hefur þó komið á daginn og skilaði Birna fínu verki í kvöld en það fór ekki á milli mála að framlag hennar var ekki átakalaust.

 

Grindavíkurkonur leiddu svo í leikhléi 36-42 og Tamara Bowie komin með 30 stig í hálfleik. TaKesha Watson var atkvæðamest hjá Keflavík í fyrri hálfleik með 19 stig en úr vöndu var að ráða hjá heimaliðinu sem réð ekkert við Bowie.

 

{mosimage}

 

Petrúnella Skúladóttir var að leika vel fyrir Grindavík í kvöld og setti oft niður góðar körfur þegar á þurfti að halda. Ein slík kom þegar Grindavík breytti stöðunni í 48-57 sér í vil eftir þriggja stiga körfu frá Petrúnellu. Keflavík tókst þó að hanga í pilsfaldi Grindvíkinga og staðan 60-69 að loknum þriðja leikhluta.

 

Járnvilji Keflavíkurkvenna gerði þeim kleift í fjórða leikhluta að komast í fyrsta yfir í leiknum síðan á upphafsmínútum leiksins. Bryndís gerði þá góða körfu í teignum fyrir Keflavík og staðan 75-76 og um sex mínútur til leiksloka. Um leið og Keflavík komst yfir kom mikið fát á Grindavíkurkonur sem fundu litlar sem engar smugur á þéttri svæðisvörn Keflavíkur. Tamara Bowie hvarf eins og dögg fyrir sólu, lét lítið á sér bera og liðsfélagar hennar leituðu lítið sem ekkert af henni sem voru hugsanlega þeirra stærstu mistök í kvöld. Í ofanálag hjá Grindavík voru skotin utan af velli ekki að rata rétta leið eins og þau höfðu gert í fyrri hálfleik.

 

Þegar tvær mínútur voru til leiksloka setti Petrúnella niður góða þriggja stiga körfu hjá Grindavík og minnkaði muninn í 85-81. Jovana Lilja Stefánsdóttir bætti um betur í næstu sókn og skoraði körfu og fékk einnig dæmda villu á varnarmann Keflavíkur. Jovana hitti úr vítinu og staðan orðin 85-84 fyrir Keflavík og 1.20 mín til leiksloka. Hvorugu liðinu tókst að skora og þegar um sex sekúndur voru til leiksloka náði Grindavík boltanum og hélt í sókn en dómarar leiksins töldu að Hildur Sigurðardóttir hefði farið aftur á vallarhelming Grindavíkur eftir að vera komin á sóknarhelming vallarins og dæmdu því Keflavík boltann.

 

Gríðarleg spenna var í Sláturhúsinu á þessum tímapunkti. Keflvíkingar tóku innkast og umsvifalaust var brotið á Bryndísi Guðmundsdóttir og hélt hún á vítalínuna. Bryndís brenndi af báðum vítunum og Tamara Bowie tók frákastið. Ekki vildi betur til en Bowie kastaði boltanum beint upp í fangið á Bryndísi og þar með var björninn unninn hjá Keflavík sem gerðu lokastig leiksins af vítalínunni.

 

Tamara Bowie gerði 39 stig í kvöld og tók 10 fráköst, 30 stig í fyrri hálfleik en aðeins 9 í þeim síðari. TaKesha Watson var með 33 stig í liði Keflavíkur og tók 14 fráköst en næst henni var Bryndís Guðmundsdóttir með 20 stig en Bryndís var vafalaust einn besti maður vallarins í kvöld og helsta vítamínssprauta Keflavíkur á raunastundum leiksins. Hjá Grindavík var Petrúnella Skúladóttir einnig að leika vel en hún gerði 16 stig í kvöld en rétt eins og með Birnu Valgarðsdóttur var ekki búist við því að Petrúnella myndi geta beitt sér mikið í úrslitakeppninni sökum meiðsla en þær Petrúnella og Birna virtust nokkuð heilar í kvöld sem er fagnaðarefni fyrir bæði lið.

 

Næsti leikur liðanna er á laugardag í Grindavík og hefst hann kl. 15:30 í Röstinni.

Tölfræði leiksins

 

www.vf.is

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -