Ljóst er að það verða Japan og Bandaríkin sem mætast í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Tókýó aðra nótt. Í dag fóru fram undanúrslitin sem segja má að hafi ekki verið mjög spennandi viðureignir en tilþrifamikil.
Heimakonur í Japan komust í fyrsta sinn í úrslitaleik leikanna er liðið mætti Frökkum í undanúrslitaleik dagsins. Frakkarnir fóru betur af stað og leiddu eftir fyrsta leikhlutann. Japanir settu þá í fluggír og skildu þær frönsku hreinlega eftir í reyknum. Að lokum vannst öruggur 87-71 sigur Japanna sem fögnuðu vel í leikslok.
Rui Machida sýndi stórkostlega leikstjórnun í leiknum þegar hún endaði með 18 stoðsendingar í leiknum. Himawari Akaho hitti einnig frábærlega og endaði með 17 stig og 7 fráköst fyrir Japan. Hjá Frökkum var Sandrine Gruda öflugust með 18 stig.
Bandaríkin héldu sigurgöngu sinni áfram er liðið mætti Serbíu í undanúrslitum leikanna. Þær bandarísku settu tóninn snemma og náðu fljótt góðri forystu. Liðið gaf hana aldrei eftir og unnu 79-59 sigur. Þetta er sjöundu Ólympíuleikarnir í röð þar sem Bandaríkin komast í úrslitaleiki leikanna. Ótrúlegur árangur!
Brittney Griner var öflug í liði Bandaríkjanna og endaði með 15 stig og 12 fráköst. Breanna Stewart var einnig sterk og endaði með 12 stig og 10 fráköst.
Úrslitaleikur Bandaríkjanna og Japan fer fram aðfaranótt sunnudagsins 8. ágúst kl 02:30.