Fyrr í dag birti Karfan.is viðtal við landsliðsmanninn Hlyn Bæringsson sem spilar fyrir Sundsvall Dragons í sænsku deildinni þar sem rædd var viðureign Sundsvall og Borås Basket í kvöld. Jakob Sigurðarson leikur með Borås en hefur leikið með Sundsvall undanfarin 6 ár. Karfan.is heyrði í Jakobi fyrir kvöldið.
Jakob sagði þetta vera rosalega sérstakt og eiga eftir að verða mjög skrítið. "Það eru margir þarna sem ég spilaði með og náttúrulega allt fólkið sem vinnur í kringum leikinn sem ég þekki."
Hvernig mun hann geta nýtt sér þekkingu sína á liðinu? "Ekkert sérstakt sem ég persónulega get nýtt mér en ég þekki marga af þessum strákum og veit í hverju þeir eru góðir." Jakob veit að þeir eru hættulegir fyrir utan þriggja stigalínuna og að það þarf að passa skytturnar þeirra, sem eru margar að sögn Jakobs.
Jakob segist tilbúinn með kannski smá olnboga ef Hlynur setur á hann hindrun. "Annars vorum við alltaf með þá reglu á æfingum að hann myndi ekki setja hindrun mig. Vonandi er hún ennþá í gildi!"
Leikurinn hefst kl. 19:00 að sænskum tíma.