Jakob Sigurðarson var hetja Sundsvall er hann tryggði sínum mönnum sigur á Södertälje í framlengdum leik í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi, 82-81. www.visir.is greinir frá.
Jakob skoraði sigurkörfu leiksins á loksekúndum leiksins en Södertälje hafði komist einu stigi yfir þegar fimm sekúndur voru til leiksloka.
Jakob átti mjög góðan leik. Hann skoraði 24 stig og var stigahæstur sinna manna. Hann spilaði í 42 mínútur, tók fimm fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal fjórum boltum. Hann nýtti fjögur af sex þriggja stiga skotum sínum og átta fa níu skotum af vítalínunni.
Sundsvall er í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig eftir átján leiki, fjórum stigum á eftir toppliði Solna. Helgi Már Magnússon leikur með Solna.