spot_img
HomeFréttirJakob: Þetta var rosalegt!

Jakob: Þetta var rosalegt!

00:16
{mosimage}

(Jakob Örn var með þrennu í kvöld en hér er hann í kröppum dansi)

,,Ég hef aldrei spilað fjórframlengdan leik áður, ég hef mest farið í tvær framlengingar held ég,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson leikstjórnandi KR í samtali við Karfan.is í kvöld. Jakob fór hamförum í kvöld með magnaða þrennu fyrir KR, 31 stig, 10 fráköst og 12 stoðsendingar. Jakob reyndist þrautgóður á raunastund fyrir KR í kvöld þar sem hann gerði nokkrar risastórar körfur á lokasprettinum ásamt því að stjórna leik KR eins og herforingi.

,,Þetta var rosalegt. Þreytan var farin að segja til sín en maður verður bara að halda áfram og vera skynsamur,“ sagði Jakob en hvernig líður varnarliði eins og KR með það að fá á sig 124 stig á heimavelli?

,,Við unnum, það er það eina sem skiptir máli. Þetta var einn og hálfur leikur,“ sagði Jakob þreyttur en sæll í lokin. Hann bætti því við að honum hefði ekki fundist hann þurfa að stíga meira upp í KR-liðinu en aðrir leikmenn en hann gerði það engu að síður þegar Jason Dourisseau fór af velli með fimm villur eftir að hafa skorað nánast að vild í framlengingunum.

,,Við leituðum eftir besta skotinu, ég fékk nokkur opin skot og sem betur fer fóru þau niður hér í endann. Við unnum leikinn og það skiptir máli og við náðum að stoppa Keflavík þegar það skipti máli,“ sagði Jakob sem á frekar von á því að mæta Grindavík en Snæfell í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn.

,,Grindavík er í mun betri stöðu en Snæfell en það getur ennþá allt gerst en Grindavík er í lykilstöðu og miklu líklegri,“ sagði Jakob en er hann sammála því að tímabilið í heild hafi verið fyrirsjáanlegt og margir hefðu haft það snemma rétt hjá sér að Grindavík og KR myndu mætast í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn?

,,Alls ekki, svona leikur eins og í kvöld, það er ekkert sem fólk getur séð fyrir. Þetta var bara hörkuleikur og búið að vera flott Íslandsmót og það flottasta er eftir,“ sagði Jakob kátur í leikslok en kappinn fór algerlega á kostum í kvöld með KR sem og fjöldamargir aðrir leikmenn.

[email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -