KR lagði Grindavík í framlengdum leik á Meistaravöllum í kvöld í 11. umferð Bónus deildar karla, 120-112. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 12 í 3.-7. sæti deildarinnar.
Karfan spjallaði við Jakob Sigurðarson þjálfara KR eftir leik á Meistaravöllum.
Eigum við ekki að segja að þetta sé stóra jólagjöfin í Vesturbænum…það eru tveir í röð, loksins!
“Loksins…og þetta eru meira að segja þrír í röð með bikarnum! Loksins náum við að setja saman sigurleiki…og vinna á heimavelli, það hefur verið svolítið bras þannig að ég er mjög sáttur!“
Ég hafði smá áhyggjur af þessum leik til að byrja með…mér fannst hreinlega undarlega rólegt yfir þessu í fyrri hálfleik…en svo rættist heldur betur úr þessu…
“já…það var mjög róleg stemmning allan fyrri hálfleikinn, ég veit ekki hvað það var, það var bara bæði lið og áhorfendur og einhvern veginn allt á lágu tempói, lítill æsingur og lítið að gerast svo ég hafði líka smá áhyggjur…“
…sagðiru ekki í leikhléinu að það væri bara svolítið eins og þeir væru í einhverri jólaveislu hérna, reynum að keyra yfir þá hérna!!
“Jújú ég sagði að við þyrftum að skapa svolítið okkar eigin stemmningu hérna í húsinu, sem að kom! Við töluðum um það fyrir leikinn að eftir leik ætluðum við alla veganna að labba út og líða eins og við hefðum verið aggressívari og lagt meira á okkur, að við hefðum verið að gefa meiru orku en þeir og mér fannst strákarnir gera vel í því í seinni hálfleik.”
Akkúrat…varnarleikurinn var á köflum flottur hjá ykkur…
“…mér fannst hann mun betri í seinni hálfleik. Í fyrri hálfleik vorum við að gefa Daniel Mortensen alltof mikið af opnum skotum, alltof mikið af þriggja stiga skotum. Við töluðum um það fyrir leikinn og var óánægður með í hálfleik. Ég var líka óánægður með hversu oft Devon var að komast inn í teig og skapa eitthvað, auðvitað er það svolítið erfiðara að eiga við því hann er mjög snöggur og skapandi og góður með boltann. Við gerðum töluvert betur í seinni hálfleik, Grindavík skoraði áfram fullt af stigum en það voru aðrir að stíga upp hjá þeim og aðrir að setja skot en það er kannski eitthvað sem þarf svolítið að lifa með.“
Jújú, það er erfitt að ætla að stoppa gersamlega allt. Nú er engin ástæða til að gera lítið úr sigrinum en það féll með ykkur að Jordan fékk tvær tæknivillur þarna eftir þriðja og svo fær Mortensen fimmtu villuna þegar 4 mínútur voru eftir…en það þarf að nýta sér það og þið gerður það vel í framlengingunni. Þið fóruð mikið inn í teiginn, nánast í hverri sókn, fenguð körfu góða aftur og aftur…það hefur væntanlega verið uppleggið?
“Það var uppleggið, og líka svolítið þegar Mortensen var kominn með fjórar, þá fórum við líka inn í teig á Jason nýja manninn okkar og reyndum að skora svolítið þar sem gekk vel. Svo þegar hann fékk fimmtu villuna þá urðu þeir ennþá minni inn á vellinum og við reyndum að sjálfsögðu að nýta okkur það, bæði með að skora inn í teig og með sóknarfráköstum – þetta var bara mjög vel gert hjá okkur.“
Einmitt. Að lokum, þið takið Jason Gigliotti sem Grindvíkingar létu fara…þið lítið væntanlega svo á að þið getið nýtt krafta hans í amk. ákveðnum aðstæðum og gegn ákveðnum leikmönnum og að hann sé nægilega góður til þess…
“Að sjálfsögðu. Okkur finnst hann bara góður leikmaður, hann er stór, sterkur og ágætlega hreyfanlegur, hann frákastar rosa vel og kemur með svolítið annað inn en það sem við erum með, við erum með ágætis stærð en við erum svolítið léttir…svo þetta gefur okkur bara aðra möguleika og við getum nýtt hans styrkleika sem eru kannski aðeins öðruvísi en aðrir eru með í liðinu.“
Akkúrat, bara til hamingju með 2 í röð loksins! KR-ingar fara bara nokkuð sáttir inn í jólafríið og sáttir með heildarstöðuna?
“Jújú! Maður er alltaf sáttur með fleiri sigurleiki en tapleiki! Og eins og ég hef sagt áður þá finnst mér að við ættum að vera með 1-2 sigurleiki fleiri en við erum með en það er stundum þannig, við þurfum að læra af því og erum að því, við erum að reyna að vera stöðugri og setja saman sigurleiki og við tókum skref í rétta átt núna.“