Fjölnir tók á móti ÍR-ingum í opnunarleik liðanna í 1. deild kvenna tímabilið 2017-2018. Fjölnir hafði betur í þessum fyrsta leik liðanna, 59-47.
Strax í fyrsta leikhluta leit hvorugt liðið út fyrir að vera hrætt við að skjóta boltanum, þrátt fyrir það að fæst skotin vildu rata niður. Fjölnisstúlkur leiddu eftir fyrsta leikhluta 12-10.
Í öðrum leikhluta bættu ÍR-inga aðeins í og náðu að nýta hraða sinna ungu til að skila nokkrum auðveldum sniðskotum. Þær náðu að vinna leikhlutann með 4 stigum og gengu því inn í hálfleikinn 2 stigum yfir, 22-24.
Heimamenn virtust reiðubúnar þegar þær komu úr búningsklefanum því að þær settu strax pressu á ÍR og gestirnir fóru að gera mistök sem að Fjölnir refsaði óspart fyrir. Á fyrstu 5 mínútum þriðja leikhluta skoraði Fjölnir 12 stig á móti aðeins 4 stigum ÍR. Góð vörn undir lokin lagaði stöðuna fyrir þær bláklæddu en á lokasekúndunni setti Fanndís María Sverrisdóttir þriggja stiga skot fyrir Fjölni til að koma muninum aftur upp í 4 stig, 40-36.
Seinasti leikhlutinn var jafn og spennandi frá upphafi en Fjölnir gat svarað öllum ásóknum ÍR. Berglind Karen Ingvarsdóttir átti góðan fjórðung en hún skoraði 7 af seinustu 9 stigum heimaliðsins sem kláraði leikinn eins og áður sagði 59-47.
Fyrir heimamenn voru þær Berglind Karen Ingvarsdóttir og Aníka Linda Hjálmarsdóttir atkvæðamestar. Berglind Karen skoraði 23 stig og Aníka Linda var grimm á báðum endum vallarins, en hún skoraði 14 stig, tók 13 fráköst, stal 3 boltum og varði eitt skot.
Sá tölfræðiþáttur sem skildi liðin að var skotnýtingin og sóknarfráköstin. Fjölnir hitti úr 38% skota utan af velli á meðan að Breiðhyltingar urðu að sætta sig við 27% skotnýtingu. Ofan á þetta bættist að ÍR-ingum gekk illa að stíga út, en þær gulklæddu tóku 11 sóknarfráköst á móti fjórum sóknarfráköstum gestanna. Fjölnisstúlkur eru augljóslega mættar til leiks þó að erlendur leikmaður þeirra sé ekki ennþá komin til landsins. ÍR-ingar mega una sáttar við sitt þrátt fyrir að hafa ekki getað náð sigri í sínum fyrsta deildarleik, þær eiga nóg inni.
Þá eiga Grindavík, KR og Hamar eftir að hefja keppni í 1. deild kvenna, en svo einkennilega vill til að næsti leikur bæði Fjölnis og ÍR er gegn Grindvíkingum (þó með viku millibili)!
Myndasafn úr leik (Bára Dröfn)
Viðtöl eftir leik: