ÍR lagði Hött með minnsta mun mögulegum í Skógarseli í kvöld, 84-83.
Eftir leikinn er ÍR í 7. sæti deildarinnar með 20 stig á meðan Höttur eru fallnir, í 11. sætinu með 10 stig.
ÍR hafði góð tök á leiknum í um 35 mínútur af 40. Eftir fyrsta leikhluta leiddu þeir með fjórum stigum og var sá munur fimm stig þegar í hálfleik var komið. Í upphafi seinni hálfleiksins hóta þeir svo að gera útum leikinn. Ná mest 16 stiga forystu, en Höttur nær að laga stöðuna fyrir lokaleikhlutann og er munurinn aðeins 9 stig.
Í þeim fjórða gera gestirnir frá Egilsstöðum vel að vinna niður muninn og er allt í járnum inn í brakmínútur leiksins. Með körfu frá Nemanja Knezevic kemst Höttur í fyrsta skipti í forystu þegar rúm mínúta er til leiksloka, 82-83. Bæði lið fá nokkur tækifæri til að skora á lokamínútunni, en að endingu er það sigurkarfa Jacob Falko fyrir ÍR þegar 22 sekúndur eru eftir sem skilur liðin að, 84-83.
Þessi eins stigs sigur gífurlega mikilvægur fyrir ÍR sem á í harðri baráttu við KR, Þór og Keflavík um sæti í úrslitakeppninni. Lokaleikur þeirra er útileikur gegn föllnu liði Hauka þann 27. mars, en sama dag mun Höttur leika lokaleik sinn í bili í efstu deild gegn Álftanesi heima á Egilsstöðum.