Allen Iverson tilkynnti í dag að hann hyggðist leggja skóna á hilluna eftir glæstan 14 ára feril sem lauk með auðmýkingu þar sem ekkert lið í NBA treysti sér til að fá hann í sínar raðir.
Lesendur Körfunnar.is hafa eflaust fylgst með sápuóperunni sem hefur umkringt Iverson síðasta árið þar sem hann kom sér út úr húsi hjá Detroit Piston með þeim afleiðingum að eina liðið sem vildi fá hann var Memphis Grizzlies. Iverson sagðist tilbúinn til að leggja sitt af mörkum til að hjálpa liðinu, en eftir að hann hafði náð sér af meiðslum kom hann af bekknum í þremur leikjum fyrir liðið áður en hann gafst upp og eftir viku sögðu Grizzlies upp samningum við hann.
Eftir að ljóst varð að ekkert lið hyggðist bjóða í hann tilkynnti Iverson að NBA ferli hans væri lokið, í bili þó, því heimildir innan deildarinnar segja hann vera tilbúinn ef eitthvað lið kæmi með rétt tilboð. Hann telur sig enn eiga mikið fram að færa á vellinum, en það verður ekki tekið af honum að hann kunni á leikinn þó hann ætti oft í erfiðleikum með fólkið sem var með honum á vellinum eða á bekknum.
Iverson náði hátindi ferils síns þegar hann leiddi Philadelphia 76ers í úrslitin gegn LA Lakers, en sama ár var hann valinn MVP-deildarinnar. Hann varð einnig fjórum sinnum stigakóngur deildarinnar.