Karfan.is hitti á Ívar Ásgrímsson eftir leik Hauka og Þórs í gærkvöldi þar sem Haukar tryggðu sér 2-1 forystu í viðureign liðanna. Ívar var sáttur með niðurstöðuna og framlag allra sinna leikmanna í leiknum.
"Stórkostleg frammistaða í kvöld. Er gríðarlega stoltur af liðinu sem sýndi mikinn karakter. Vörnin okkar var bara eins og í síðust tveimur leikjum, alveg stórkostleg, en núna small sóknarleikurinn. Vorum með marga leikmenn sem voru að ógna. Finnur var frábær í þessum leik og hann var að setja stuttu skotin og þeir voru í vandræðum með að hjálpa af honum því hann var að setja þessi skot."
Kári Jónsson spilaði minnan en venja er því hann var að koma inn núna fyrst eftir heilahristing sem hann fékk í fyrsta leik liðanna.
"Við vorum ekki með Kára mikið í fyrri hálfleik. Komum honum svona hægt inn í leikinn, en hann var stórkostlegur í seinni hálfleik. Hann sýndi bara úr hverju hann er gerður. Í fyrri hálfleik reyndum við bara að koma honum inn. Við vissum að hann yrði smá ragur þannig að hann þyrfti smá tíma, sem hann fékk í fyrri hálfleik. Eins og ég segi, liðið var bara frábært og við erum með Hauk hérna útaf í lokin sem er búinn að vera mjög góður og Kiddi svarar kallinu af bekknum þegar Brandon fer út af. Þetta var bara frábær sigur."
En hvað fannst þjálfaranum um brottrekstur Brandon Mobley í leiknum?
"Ég hef ekki séð þetta enn og get ekki svarað neinu um það. Ef þetta var viljandi þá bara tökum við því, ef þetta er ekki gróft þá náttúrulega svörum við því með að mótmæla þessum dómi. Við erum alla vega búnir að fá brottreksturinn en margir aðrir sloppið við það."