Haukar lögðu Breiðablik í kvöld í Smáranum í Subway deild kvenna, 57-96. Eftir leikinn eru Haukar í 4. sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að Breiðablik er í 6. sætinu með 10 stig.
Karfan spjallaði við Ívar Ásgrímsson þjálfara Breiðabliks eftir leik í Smáranum. Í lið Breiðabliks vantaði í kvöld hina bandarísku Michaela Kelly. Munaði það um minna fyrir Blika, en Michaela hefur verið frábær fyrir þær það sem af er vetri, skilað 24 stigum, 9 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik. Samkvæmt heimildum Körfunnar mun Michaela ekki hafa verið með vegna samnings sem hún gerði við WNBA lið Indiana Fever um að taka þátt í undirbúningstímabili þeirra. Samkvæmt Ívari fékk liðið að vita þetta í gær, en félagið lítur á þetta sem brot á gerðum samning við leikmanninn.