spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍvar: Hefðum átt að vinna þetta með öruggari hætti

Ívar: Hefðum átt að vinna þetta með öruggari hætti

Ívar Ásgríms var tekinn tali eftir leik:

Þú ert væntanlega afar sáttur með sigurinn. Ég geri ráð fyrir að þú sért líka sammála því sem allir hafa talað um eftir leik við Blika að enginn leggur þá að velli áreynslulaust?

Nei, þeir eru bara gott lið, ekki síst þegar þeir hitta eins vel og þeir gerðu í kvöld. Ég er rosalega sáttur með sigurinn og sáttur við strákana. Við hefðum átt að vinna þetta með öruggari hætti en við vorum sjálfum okkur verstir með að brjóta mikið í lokin og hleypa þeim á línuna. Við vorum kannski aðeins of æstir varnarlega og vorum að freista þess að stela boltum í staðinn fyrir að spila bara heiðarlega vörn. En við vorum mjög góðir í þriðja leikhluta og byrjun fjórða þar til við fórum að brjóta of mikið. Ég er mjög sáttur með sóknarleikinn, við skorum hátt í 100 stig. Haukur var frábær og Kristján líka sóknarlega. Marques kom svo betur og betur inn eftir að hafa byrjað illa. En eins og ég segi þá er ég mjög sáttur með sigurinn, Blikar eru vel þjálfað lið og þeir hittu alls staðar í kvöld og það teygði mikið á vörninni hjá okkur.

Já, en þú hefur nú kannski samt verið frekar ósáttur með vörnina í fyrri hálfleik?

Jájá, ég var það, við vorum ekki nógu grimmir og við vorum með senterinn okkar of hátt en á móti kom að Snorri H. var að setja þristana sína niður sem gerði okkur erfitt fyrir því að við vildum hafa Kanann okkar inn í miðjunni en meðan Snorri dældi þristum var það náttúrulega erfitt.

En ég er sáttur með þennan sigur og við erum núna 2-2. Ég hefði viljað vera kominn með 3 sigra en við vorum mjög slakir á móti ÍR. Við erum þó búnir að vinna réttu leikina ef svo má segja og við þurfum að halda því áfram að vinna réttu leikina og taka svo einhverja óvænt.

Einmitt, en svona í lokin, hvað er að frétta af Hjálmari?

Hann er með rifu í vöðvafestingum í nára. Hann á eftir a.m.k. tvær vikur í hvíld, svo skoðum við málin eftir það, þá verður hann búinn að hvíla í 3 og hálfa viku. Þannig að þetta gæti orðið 2-4 vikur í viðbót.

Meira má lesa um leikinn hér.

Viðtal: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -