spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍvar: Ég er gríðarlega stoltur af strákunum

Ívar: Ég er gríðarlega stoltur af strákunum

Haukar sigruðu Tindastól fyrr í kvöld með 73 stigum gegn 66 í fjórtándu umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Tindastóll í 2. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá Njarðvík í toppsætinu. Haukar eru í 8.-9. sætinu ásamt ÍR.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við þjálfara Hauka, Ívar Ásgrímsson, eftir leik í DB Schenker höllinni í Hafnarfirði.

Karfan: Þið komust kannski í snertingu við botninn í Hellinum í síðasta leik – það var vægast sagt ekki góður leikur hjá ykkur?

Ívar: Nei, við vorum í raun alveg skelfilegir, það vantaði mikið upp á hjá okkur, þessa baráttu og þessa geðveikis vörn sem var í dag. Ég er gríðarlega stoltur af strákunum í kvöld, hvernig þeir bregðast við eftir þetta mótlæti sem þeir hafa mátt þola. Við vorum komnir á rosa gott skrið þegar við unnum Keflavík hér, en svo neitaði Kaninn að spila vegna einhverra smávægis meiðsla þó sjúkraþjálfarinn segir að hann sé í standi til að spila. Það hafði mjög neikvæð áhrif á okkur – að fá svona á okkur einmitt þegar við erum á uppleið er erfitt. Ég vona að við getum nýtt þennan leik til að spyrna okkur áfram upp og sýna úr hverju við erum gerðir.

Karfan: Þið haldið Stólunum í 66 stigum! Það er alveg frábært, fáir höfðu búist við því fyrir leik, nema kannski þið?

Ívar: Jújú, ég held að menn megi bara fletta því upp hversu langt síðan við töpuðum á móti Stólunum á heimavelli! Ég held að það sé nokkur ár. Við töluðum um það fyrir leik og við ætluðum ekkert að fara að byrja á því í kvöld að tapa fyrir þeim. Við mötsum ágætlega upp á móti þeim.

Menn gætu talað um að þá hafi vantað eitthvað, en við höfum ekki spilað með fullt lið í allan vetur, okkur hefur alltaf vantað einn til tvo lykilmenn.

Karfan: Mikið rétt, hvað er að frétta af Kristjáni Leifi?

Ívar: Hann hefur verið að reyna en hann fær alltaf bakslag og fær höfuðverk. Þannig að við vitum í raun ekkert, þetta eru þannig meiðsli að hann þarf bara sinn tíma.

Karfan: Nú voru nýju erlendu leikmennirnir ekki að heilla og voru kannski dæmdir svolítið hart, þeir voru ekki góðir í síðasta leik – kannski ekki frekar en liðið í heild. Í kvöld voru þeir hins vegar alveg frábærir varnarlega, en geta þeir meira sóknarlega?

Ívar: Russell er mjög góður að klára undir körfunni, þeir voru alltaf 3-4 á honum og þá opnast fyrir hina. Við þurfum að fara að nýta það, við vorum að reyna að nýta okkur það þegar þeir voru að falla inn, það sem við þurfum að gera núna er að nýta okkur þessa hluti og ná flæði í sóknina. Mér fannst flæðið mjög gott í kvöld og menn vera að gera þetta rosa vel. Ég er bara stoltur af öllum sem komu inn á og allir lögðu sig gríðarlega fram. Við fengum Ori inn af bekknum og hann lagði sig vel fram.

Karfan: Já, hann var mjög góður varnarlega, hann reyndi ekki mikið sóknarlega – getur hann meira þeim megin?

Ívar: Jájá, hann er alveg seigur sóknarlega. Við erum með fullt af skorurum, meðan við erum ekki með Kristján þá þurfum við einhvern til að hvíla Kanann. Hann skilaði sínu mjög vel í kvöld og þarf bara að halda þessu áfram. Hann hefur svo alveg sýnt það á æfingum að hann hittir úr fríum þristum. Hann hafði verið veikur í dag en sýndi mikinn vilja að koma og leggja sig fram þannig að ég er bara sáttur.

 

Viðtal / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -