spot_img
HomeFréttirÍvar: Ef þú slakar á og kemur ekki tilbúinn þá taparðu

Ívar: Ef þú slakar á og kemur ekki tilbúinn þá taparðu

Haukar hafa verið á siglingu undanfarna leiki og virðast ekki ætla að gefa neitt eftir. Liðið er farið að sýna tennurnar eftir rólega byrjun. Karfan.is tók Ívar Ásgrímsson, þjálfara Hauka tali eftir stórsigur á ÍR í Hertz hellinum í gærkvöldi.

 

"Já, það má segja það. Við erum heitir í augnablikinu. Ég vona að við höldum áfram á þessu róli og að við náum að klára þetta fram að jólum."

 

Haukar hafa nú sigrað þrjá leiki í röð ef bikarinn er tekinn með í reikninginn. Þar á meðal eru lið eins og ÍR, FSu og Snæfell sem hafa fallið í valinn. Eru Haukar hins vegar tilbúnir í liðin sem eru ofar í töflunni eins og Stjörnuna sem er þeirra næsta viðureign?

 

"Deildin hefur sýnt það að ef þú slakar og kemur ekki tilbúinn þá taparðu. Þú þarft að vera grimmur og við erum búnir að sýna það í síðustu leikjum.  Við þurfum bara að gera það líka á móti Stjörnunni. Stjarnan tapaði hérna fyrir ÍR. Það getur allt gerst.  Ef við komum ekki tilbúnir í þann leik töpum við."

 

Haukar eru ágætlega breitt lið og það sást að miklu leyti í leiknum í gær þar sem allir leikmenn skoruðu og mínútunum var jafnt skipt þó það hefði engin áhrif á leik liðsins. Það hlýtur að vera lúxusvandamál fyrir þjálfara að hafa þessa breidd?

 

"Við erum án tveggja leikmanna núna. Breiður hópur getur líka þýtt að það fá ekki allir að spila og það er erfitt að láta alla fá mínútur. Þegar gengur vel þá sætta menn sig frekar við að sitja meira en spila."

Fréttir
- Auglýsing -