spot_img
HomeFréttirÍvar: Breytingarnar hjá okkur eru að virka

Ívar: Breytingarnar hjá okkur eru að virka

Sóknarleikur Hauka gekk eins og vel smurð vél í leik liðsins gegn FSu í gærkvöldi. Varnarleikur FSu var ekki upp á marga fiska en vel skipulagðar sóknir Hauka gerður lítið úr öllum tilburðum gestanna til varna. Ívar Ásgrímsson var sáttur með stöðuna eftir leik.

 

"Við erum á góðri ferð í augnablikinu. Erum að spila mjög vel. Vörnin okkar í fyrsta leikhluta var stórkostleg. Þeir eiginlega áttu engin svör og við fengum auðveldar körfur í hraðaupphlaupi eftir það."

 

Það er komið annað hljóð í strokkinn hjá þjálfara Hauka en hann var ómyrkur í máli eftir leik liðsins gegn Keflavík í 2. umferð Domino's deildarinnar.

 

"Já, við gerðum breytingar á okkar leik. Bæði varnarlega og sóknarlega. Það er bara að virka. Við breyttum miklu eftir KR leikinn. Þessi tveir leikir sem við töpuðum fengu okkur til að skoða okkar mál mikið betur. Við rýndum mjög vel í þetta og höfum unnið mikið í þessu, bæði leikmenn og þjálfarar. Þetta er að virka vel í augnablikinu. Sóknarleikurinn okkar er frábær, boltinn er að ganga vel og það er hætta alls staðar.

 

Ívar sagði þessar breytingar felast að mestu í hlutverki Finns Atla í varnarleiknum. "Hann er núna aðeins meira í hjálpinni og við spilum stífar úti. Við erum líka farnir að skilgreina hlutverk hvers og eins mikið betur og nákvæmar í hverjum leik fyrir sig. Sóknarlega fórum við að spila utar og erum að byrja á veiku hliðinni miklu hærra. Það er að opna leikinn miklu meira fyrir okkur."

 

Fyrir þessa leiktíð sagði Ívar að þriggja ára áætlun Hauka að vinna titil sé á gjalddaga á þessari leiktíð. Er liðið enn á réttu spori hvað þetta varðar?

 

"Við vissum alveg að við værum ekkert að fara að vinna titla í nóvember. Við lentum á slæmum kafla í janúar á síðust leiktíð og við erum að vonast til þess að við séum búnir þessa slæmu kafla. Við erum búnir að taka á okkar málum. Auðvitað er erfitt að halda dampi allt tímabilið og við vitum að við eigum eftir að eiga lélega leiki líka. Við vinnum þá bara úr því."

Fréttir
- Auglýsing -