spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍvar Ásgríms var ánægður með stigin og góðu kaflana í leiknum

Ívar Ásgríms var ánægður með stigin og góðu kaflana í leiknum

Tveir leikir fóru fram í Dominos deild karla í kvöld. Í þeim fyrri lögðu heimamenn í Haukum lið Skallagríms. Sterkur sigur fyrir Hauka, sem eftir leikinn eru í 6.-7. sæti deildarinnar ásamt ÍR, Skallagrímur í því 8.-9. ásamt Grindavík

Hérna er umfjöllun um leikinn

Karfan spjallaði við þjálfara Hauka, Ívar Ásgrímsson, eftir leik í DB Schenker Höllinni í Hafnarfirði.

Þetta var vægast sagt kaflaskiptur leikur?

Já, við tókum 2 leikhluta, við tókum annan og fjórða leikhluta og þeir voru mjög góðir hjá okkur. En fyrsti og þriðji, ég bara veit ekki hvað við vorum að tala um hérna inn í klefa. Við komum alls ekki tilbúnir inn í þessa leikhluta. Það var hræðileg stemmning hjá okkur í fyrsta og þriðja leikhluta og má segja að þeir spegluðu hvor annan.

Einmitt, þetta var bara eins og að kveikja og slökkva ljósin!

Já, ég næ þessu ekki. Við vorum algerlega máttlausir í þessum tveimur leikhlutum og vantaði alla stemmningu og baráttu. Við vorum að hengja haus og gera fáránleg mistök. En við erum að spila á 8-9 leikmönnum í dag, þó okkur vanti Kristján, og ég myndi segja að breiddin okkar hafi skilað þessu í dag. Ég held að við höfum átt meiri orku í báðum þessum leikhlutum sem skiptu máli. Vörnin okkar þarna í lokin var alveg frábær, þeir sáu ekki körfuna.

Já, á köflum leit vörnin ykkar ágætlega út en hún var kannski kaflaskipt eins og leikurinn í heild?

Já, við þurfum að skoða það af hverju við eigum svona slaka leikhluta. Við höfum stundum byrjað fyrsta leikhluta illa en ekki þriðja leikhluta líka. Það situr í manni því hinir tveir leikhlutarnir voru góðir og við hefðum átt að vinna þetta á öruggari hátt að mínu mati. Við sýndum sannarlega gæði í góðu leikhlutunum.

Ég er gríðarlega ánægður með að fá Hjálmar til baka. Hann var frábær og það var eins og hann hefði ekki verið að gera annað undanfarið en að spila!

Mikið rétt. Ef maður tekur svo einhvern annan út líka þá var Hilmar Smári frábær í leiknum, setti mikilvæg stig í lokin.

Hilmar var bara frábær í þessum leik. Við töluðum um það við þjálfararnir að hann spilaði ekki nægilega góða vörn á móti Val í fyrsta leik en hann hefur verið að spila mjög góða vörn upp á síðkastið. Svo bara þessir ungu strákar, það hefur verið kvartað yfir leikstjórninni hjá okkur en mér finnst bæði Arnór og Daði hafa staðið sig mjög vel. Við erum frekar í vandræðum í þrista og fjarkastöðunni svona upp á skiptingar, við þurftum að spila svolítið mikið upp á Kidda í dag og Hjálmar þurfti að spila full mikið svona miðað við að hann er að koma úr meiðslum.

Er langt í að Kristján komi aftur?

Hann fékk heilahristing svo við vitum ekki neitt. Hann gæti alveg eins verið frá fram að jólum. Við tökum enga áhættu hvað það varðar.

En allaveganna, mjög góð stig í afar kaflaskiptum leik.

Já, mjög mikilvæg stig, ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt þetta er.

Þetta er einn af réttu leikjunum til að vinna, ekki satt?

Jú, þetta er einn af þeim, við erum búnir að vinna réttu leikina en við þurfum líka að fara að vinna svona óvænta leiki. Við vorum nálægt því í Njarðvík en það fer að koma. Þegar við náum okkar vopnum þá náum við að vinna þessa leiki sem enginn býst við!

 

 

Fréttir
- Auglýsing -