spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍtölsk fjölkynngi kláraði ÍR

Ítölsk fjölkynngi kláraði ÍR

ÍR-ingar voru snöggir að rífa sig upp eftir þriggja daga hverfasorgina og sóttu 2 stig í Ljónagryfjuna í síðustu umferð. Gestirnir úr Vesturbænum gerðu líka góða hluti á sama tíma og lögðu ósigrandi lið Garðbæinga. Fyrir leikinn var ljóst að ÍR-ingar munu ná inn í úrslitakeppnina í 7. eða 8. sæti. Andstæðingar þeirra verða þá Stjarnan eða Njarðvík en það er kannski svolítið eins og að velja á milli þess að brenna til eilífðarnóns í helvíti eða þurfa að sæta krónískum vatnsbrettapyntingum. Fyrir KR-inga er fjórða sætið hins vegar raunhæfur möguleiki svo færa má rök fyrir því að þessi leikur skipti þá meira máli en heimamenn.

Spádómskúlan: Það eru tómir stælar í kúlunni að þessu sinni og erfitt að eiga við hana. Hún spyr undirritaðan með þjósti ítrekað hver tilgangur lífsins sé, annað fæst ekki upp úr henni. Sennilega meinar hún að tilgangur leiksins skipti öllu máli og hann muni ráða úrslitum. Þá er ljóst að KR mun vinna leikinn örugglega, 71-95.

Byrjunarlið:

ÍR: Robinson, Siggi, Fissi Kalli, Matti, Capers

KR: Di Nunno, Emil, Boyd, Kristó, Helgi Már

Gangur leiksins

Það var heilmikið fjör strax í byrjun enda góður stemmari í pökkuðum Hertz-hellinum. Ekki mátti sjá að kúlan hefði rétt fyrir sér og ÍR-ingar hleyptu gestunum ekki á neitt flug. Mest var munurinn 4 stig en KR-ingar lögðu sitt af mörkum til að halda leiknum í jafnvægi með 7 töpuðum boltum í leikhlutanum. Di Nunno var allsvakalegur sóknarmegin og lét ÍR-inga líta verulega illa út á köflum og var hann kominn með 14 stig eftir tíu. Staðan eftir einn 23-24.

ÍR-ingar lentu í umtalsverðu basli sóknarlega framan af öðrum leikhluta enda lokuðu gestirnir teignum vel. Vörn heimamanna var einnig að meðaltali góð en þó virtust Vesturbæingar ætla að skríða í hægðum sínum eins og skjaldbaka í burtu með stigin 2. Hún fór þó hægt yfir og forskotið varð aldrei meira en 6 stig. Sóknarlega redduðu heimamenn sér með þristum frá Fissa Kalla og Matta auk þess sem gestunum hélst enn illa á boltanum. Hjá KR var Di Nunno kaldari en Kristó tók við keflinu með slatta af sóknarfráköstum og auðveldum körfum. Í leikhléi var staðan 40-43.

Gestirnir fóru mun betur af stað í síðari hálfleik og um miðjan leikhlutann leiddu þeir 51-60, mesta forskot leiksins til þessa og Borche tók leikhlé. Það hafði jákvæð áhrif á liðið eða í það minnsta Robinson en hann minnkaði muninn í aðeins 1 stig, 64-65 með þriðja þristinum sínum í leikhlutanum. Að leikhlutanum loknum stóð allt við það sama, staðan 64-67.

KR-ingar settu fyrstu körfu fjórða leikhluta og staðan stóð í 64-69 óralengi. Því lengur sem þannig stóð virtist karfa frá heimamönnum verða mikilvægari og mikilvægari en það var hins vegar Ítalinn fjölkunni, Di Nunno, sem leysti leikinn úr álögum og galdraði fram stig um miðjan leikhlutann. Borche reyndi í tvígang með skömmu millibili að brýna menn sína og blessa en útlitið var orðið ansi dökkt þegar 3 mínútur voru eftir og Di Nunno setti stöðuna í 66-73. Þrátt fyrir fullan vilja heimamanna kom allt fyrir ekki og KR-ingar hirtu stigin – lokatölur 72-80.

Menn leiksins

Di Nunno og Kristó fá að vera hlið við hlið hér þó Ítalinn fái fyrirsögnina. Di Nunno setti 28 stig í leiknum og skoraði tvær mikilvægar körfur af harðfylgi seint í leiknum. Hann gerði þó ekki mikið meira en að skora…og tapa boltum en þeir urðu 9 talsins. Kristó bætti má segja upp fyrir það undir körfunni með heilum 9 sóknarfráköstum, tók 17 fráköst í heildina og skoraði 21 stig.

Kjarninn

ÍR-ingar hittu afskaplega illa í þessum leik og það er ekki hægt að benda á allgóða KR-vörnina í öllum tilvikum. Að mati undirritaðs var frammistaða heimamanna að öðru leyti alveg ágæt, ekki síst í ljósi þess að stigin 2 sem voru í boði nýtast KR-ingum mikið betur. Matti var þó alls ekki sáttur í viðtali eftir leik og talaði um að liðið þarf á svolítið meiri töffaraskap að halda ætli það sér eitthvað í úrslitakeppninni.

Hlutirnir virðast vera að mjakast í rétta átt hjá KR-ingum. Enn var Jón Arnór frá en Pavel spilaði hálfan leikinn og gerði a.m.k. vel varnarlega. Boyd var að vísu ekki vel tengdur en vörnin var í áttina og Di Nunno hefur sýnt afskaplega lipra takta sóknarlega að undanförnu. Hvort liðið muni valda usla í úrslitakeppninni eða bara vinna þetta eins og venjulega skal ekki fullyrt hér. Ingi Þór tók undir það í viðtali að liðið væri að mjakast í rétta átt en væri þó til í að vera kominn nokkuð lengra enda ansi stutt í alvöruna.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -