Danska liðið Bakken Bears hefur gengið frá samkomulagi við Israel Martin, fyrrverandi þjálfara Tindastóls í Domino's deildinni, um að þjálfa liðið á komandi leiktíð. Þetta kom fram á Facebook síðu Bakken Bears í dag.
Martin var valinn þjálfari ársins á sínu fyrsta tímabili í Domino's deildinni, eftir að hafa náð 2. sæti í deildarkeppni Domino's deildarinnar með 17 sigurleiki af 22. Tindastóll fór svo að lokum í úrslit gegn KR í úrslitakeppni Domino's deildarinnar og einnig í fyrirtækjabikarnum í upphafi leiktíðar. Þar að auki komst Tindastóll í undanúrslit bikarkeppni KKÍ.
Martin er spenntur fyrir þessu nýja verkefni. "Bakken Bears er stærsta félag Danmerkur og er alltaf í baráttunni um titla," sagði Martin í yfirlýsingu Bears. "Bears er með metnaðarfulla starfsemi og Aarhus er yndislegur bær. Ég mun gera mitt besta til að félagið nái sínum markmiðum," bætti Martin við.
Martin mun taka formlega við stjórnartaumnum hjá Bears 1. ágúst nk.