Haukar lögðu Þór í kvöld í 16. umferð Dominos deildar karla. Karfan spjallaði við þjálfara Hauka að leik loknum.
Israel Martin er hæstánægður með sitt lið, eins og alltaf:
Í fyrsta lagi, takk fyrir frábæran leik! Spennandi, vel leikinn og mikið af fallegum körfum og ég veit ekki hvað! En það besta fyrir ykkur er væntanlega sigurinn og stigin – hvað gerði gæfumuninn í kvöld?
Við spiluðum vel í seinni hálfleik. Við töluðum um það í klefanum í hálfleik að við þurfum að leyfa eitthvað, það er ekki hægt að spila gegn góðu liði eins og Þór og stoppa allt. Þeir hafa mjög fjölhæfa leikmenn sem geta drævað, skotið og skorað undir körfunni og nýta misræmi vel. Við lögðum áherslu á að stoppa gegnumbrotin hjá þeim, þeir hittu vissulega vel fyrir utan og áttu góðan leik eins og bæði lið – en það var kannski baráttuandinn í liðinu, einkum í fjórða, sem gerði gæfumuninn. Það vantaði kannski aðeins upp á baráttuna fyrr í leiknum, það voru þessi litlu baráttuatriði sem skiptu máli í lokin, að berjast fyrir lausum boltum, öllum fráköstum, henda sér í gólfið og slíkt.
Kári gerði líka mjög vel í fjórða og setti mikilvæg stig í lokin – hann er alltaf að verða betri eins og hefur oft verið talað um. Hjálmar er svo kominn til baka líka – þú ert væntanlega nokkuð sáttur með stöðuna á liðinu núna?
Já vissulega, og hef verið það frá byrjun. Það er gaman að byggja upp liðið á mörgum heimamönnum, við höfum góða blöndu af ungum og svo reyndum leikmönnum. Við höfum tvo góða leiðtoga í liðinu, Kára og Emil, sem stýra liðinu og taka ákvarðanir. Við þrír eigum gott með að vinna saman og finna bestu lausnirnar í sameiningu. Ég kvarta alls ekki og ég er ánægður með hvernig liðið hefur vaxið með tímanum, við erum allt annað lið núna en í byrjun.
Jájá, framhaldið er mjög spennandi – hver er næsti leikur ykkar?
Við eigum ÍR í Seljaskóla í næsta leik á sunnudag. Það er frekar töff dagskrá núna, en við tökum bara einn dag í endurheimt og höfum svo einn dag til að undirbúa okkur og við munum auðvitað gefa okkur alla í þetta eins og alltaf.