Einar Einarsson hefur síðustu ár starfað erlendis sem einka, styrktar og sjúkraþjálfari hjá öflugu fyrirtæki í Katar. Starf hans þar hefur komið honum á ansi merkilegan stað en í dag er hann sérstakur einkaþjálfari Joel Embiid leikmanns Philadelphia 76ers.
Þeir sem þekkja til vita að ferill Embiid hefur ekki beinlínis verið dans á rósum en erfið meiðsli héldu honum lengi frá er hann kom í NBA deildina. Einar hefur starfað með Embiid síðan árið 2016 og aðstoðaði hann við að komast í gegnum meiðslin.
Einar var í viðtali við bæjarblaðið Mosfellingur í síðustu viku þar sem hann segir frá sambandi sínu við Embiid:
„Ég vissi í rauninni ekkert hver hann var og kom bara fram við hann eins og aðra sjúklinga hjá mér á meðan að aðrir komu fram við hann eins og stjörnu. Hann var í raun ekki á góðum stað fyrst þegar við hittumst fyrst. Hann var búinn að vera frá í tvö ár og nýbúinn að missa bróður sinn í bílslysi.” sagði Einar og bætti við:
„Í byrjun október, meðan ég var í æfingaferð í Kína, skrifuðu Aspetar og 76ers svo undir samstarfsamning og það varð ljóst að ég mun fylgja Joel áfram næsta tímabil sem er mjög spennandi. Nú er hann heill og við getum einbeitt okkur að frammistöðuhlutanum. Ég myndi segja að Joel Embiid sé einn af 10 mest spennandi íþróttamönnum í heimi í dag. Margir segja að hann geti orðið besti leikmaður NBA-deildarinnar,“
Viðtalið við Einar má finna í heild sinni hér.
Mynd: Mosfellingur