spot_img
HomeFréttirÍslensku stúlkurnar réðu lögum og lofum á vellinum

Íslensku stúlkurnar réðu lögum og lofum á vellinum

U18 ára landslið stúlkna sigraði Dani örugglega í kvöld í fyrsta leik þeirra á NM 2016 í Finnlandi. Íslendingar hófu leikinn af krafti og létu forystuna aldrei af hendi þrátt fyrir mikla baráttu dönsku stúlknanna, lokatölur 39-62.

Íslendingar mættu tilbúnar til leiks og réðu lögum og lofum á vellinum fyrstu mínúturnar. Eftir rúmlega fjögurra mínútna leik hafði íslenska liðið skorað 10 stig en það danska átti en eftir að komast á blað. Danir komu til baka fyrir lok leikhlutans og minnkuðu muninn niður í 8 stig, 7-15. Thelma Dís Ágústsdóttir fór mikinn fyrir Ísland í fyrsta leikhlutanum, skoraði 9 stig og tók 6 fráköst.

Íslensku stelpurnar héldu áfram að auka forskotið í öðrum leikhluta. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir var sterk undir körfunni og setti niður fjögur stig fyrir Ísland í upphafi hans. Danir áttu greiðari leið að körfunni í byrjun annars leikhluta en í þeim fyrsta, en Íslendingar tóku leikhlé eftir um þriggja mínútna leik og náðu að stilla af varnarleikinn. Þær héldu Dönum í 7 stigum í öðrum leikhluta og héldu af velli í hálfleik með nokkuð góða forystu, 14-36.

Íslendingar voru óheppnir í skotum sínum í upphafi seinni hálfleiks þrátt fyrir að skapa sér góð færi. Fyrstu þrjú stig Íselndinga í leikhlutanum komu af vítalínunni. Dýrfinna Arnardóttir bætti við tveimur stigum utan úr teig og meira skoruðu íslensku stúlkurnar ekki fyrr en tæpar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Á sama tíma sóttu Danir í sig veðrir í sóknarleiknum og skorðuðu 19 stig í leikhlutanum. Munurinn því kominn niður í 10 stig fyrir loka fjórðunginn, 33-43.

Eftir slakan þriðja leikhluta, sýndu íslensku stelpurnar mikinn karakter og náðu aftur stjórn á leiknum. Með góðum varnarleik héldu þær Dönum í 6 stigum í leikhlutanum og lönduðu að lokum öruggum 23 stiga sigri, 39-62. Sylvía Rún Hálfdánardóttir var atkvæðamest Íslendinga í leiknum með 17 stig, 8 fráköst og 6 stolna bolta og Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 12 stig og tók 9 fráköst.

Tölfræði leiksins

Myndir úr leiknum

 

Viðtöl:

 

 

Fréttir
- Auglýsing -