Undir 18 ára stúlknalið Íslands lagði Danmörku í dag í öðrum leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð, 68-58.
Íslenska liðið byrjaði leik dagsins vægast sagt illa. Leyfa Danmörku að skora fyrstu 9 stig leiksins. Þær ná þó að bíta í skjaldarrendur og svara með 9 stiga áhlaupi, en staðan eftir fyrsta leikhluta er jöfn 13-13. Undir lok fyrri hálfleiksins gerir Ísland svo vel að vera skrefinu á undan og eru þær 4 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-30.
Í upphafi seinni hálfleiksins lætur Íslands svo kné fylgja kviði og byggja þær upp þægilega 14 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 54-40. Í þeim fjórða gera þær svo vel að hleypa Danmörku aldrei inn í leikinn, eru mest 17 stigum yfir, en vinna að lokum með 10 stigum, 68-58.
Líkt og í fyrsta leik mótsins gegn Noregi var Emma Hrönn Hákonardóttir stigahæst fyrir Ísland í leiknum, en í dag skilaði hún 17 stigum, henni næst var Hildur Björk Gunnsteinsdóttir með 15 stig, 7 fráköst, Heiður Karlsdóttir með 12 stig, 9 fráköst og Sara Líf Boama með 6 stig og 17 fráköst.
Ísland er því enn taplaust á mótinu með tvo sigra, en á morgun kl. 14:00 mæta þær Finnlandi.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil